„Það er unnið hörðum höndum að því að leysa málið, og við í Kvikmyndaskóla Íslands erum þakklát ráðuneytunum fyrir alla þá vinnu sem þau hafa lagt á sig,“ segir Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands.
Í gær var greint frá því að forsvarsmenn skólans myndu líklega fá svör frá stjórnvöldum í dag um framtíð hans.
Í samtali við mbl.is segist Hlín hafa verið í sambandi við starfsmenn tveggja ráðuneyta í dag, þar sem fram hafi komið að unnið sé að því að leysa ákveðin tæknileg atriði.
Hlín vill ekki tilgreina hvaða ráðuneyti það eru, en vitað er að vonir standa til þess að málefni Kvikmyndaskólans flytjist frá mennta- og barnamálaráðuneytinu yfir til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Hún segist nú, eftir samtöl dagsins, binda vonir við að stjórnvöld muni veita frekari tíðindi á mánudag.
Aðspurð segir hún venjulegan skóladag hafa verið í dag og að unnið verði að áframhaldandi starfsemi í næstu viku. Það sé vegna þess trausts sem starfsfólk finnur fyrir frá stjórnvöldum um að lausn sé í sjónmáli.
Hún undirstrikar þó að tíminn skipti miklu máli. Mikið er í húfi fyrir starfsfólkið, sem margt hvert á fjölskyldur og sækir vinnu sem það treystir á að haldi áfram.