Varað við þjófum á miðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þjófum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þjófum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við þjófum sem hafa verið á ferðinni á miðborgarsvæðinu undanfarna daga.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að þeir séu sagðir vera erlendir ríkisborgarar sem herji á ferðamenn. Tilkynningar um slík máli hafi borist við Hallgrímskirkju og nágrenni hennar.

Þjófarnir eru gjarnan tveir eða fleiri hverju sinni og stela m.a. úr vösum, töskum og bakpokum fólks, bæði á almannafæri og gististöðum. Sjálfir eru þeir klæddir eins og ferðamenn, ef svo má segja, og eru líka með bakpoka meðferðis.

„Talið er að sömu þjófar hafi nýlega verið á þekktum ferðamannastöðum á Suðurlandi og stolið þar með sama hætti. Þar dreifðu þeir t.d. athygli ferðamanna með því að bjóðast til að taka af þeim myndir, en meðan á því stóð létu þjófarnir greipar sópa,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Þau sem kunna að búa yfir einhverjum upplýsingum um þessa þjófa, t.d. mögulegan dvalarstað þeirra, eru beðin um að koma þeim á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert