Að hugsa út fyrir boxið

Þórunn Árnadóttir hefur slegið í gegn með Pyropet-kertin en er …
Þórunn Árnadóttir hefur slegið í gegn með Pyropet-kertin en er nú farin að vinna með ilmi og pappír. Ljósmynd/Studio Fræ

Innan um fallega list og handverk í Hönnunarsafninu í Garðabæ má finna vöruhönnuðinn Þórunni Árnadóttur en hún er þar um þessar mundir í vinnustofudvöl.

Þórunn býður blaðamanni upp á kaffistofu þar sem við fáum næði til að ræða um hönnun, en Þórunn er ein fjölmargra sem eiga vörur á sýningu á HönnunarMars sem hefst í næstu viku.

Hundruð þúsunda kerta

„54Celsius snýst um að hugsa út fyrir boxið; um hvað kerti eru í raun, hvaða möguleika hafa þau sem við erum ef til vill ekki að nýta? Hvað gerist þegar við kveikjum á kerti? Ég er búin að vera með Pyropet í sölu síðan 2014 og í kjölfarið stofnuðum við fyrirtækið 54Celsius, sem er einmitt bræðslumark kertavax. Við höfum verið með margar vörulínur, allt í svipuðum dúr,“ segir Þórunn, en þau selja mest í heildsölu í Bandaríkjunum.

„Við erum með vöruhús á leigu í Bandaríkjunum og þaðan er vörunum dreift í búðir. Kertin eru búin til víða; í Bandaríkjunum, Kína, Litáen og Víetnam,“ segir hún.

Pyropet-kertin er með beinagrindum innan í sem kemur í ljós …
Pyropet-kertin er með beinagrindum innan í sem kemur í ljós þegar þau brenna. Ljósmynd/Luisa Hanika

„Við höfum selt í kringum fjögur hundruð þúsund Pyropet-kerti og höfum líka verið að vinna í samstarfi við önnur fyrirtæki að gera kerti, eins og fyrir Disney, Liquid Death & Martha Stewart og Tim Burton. Við höfum líka búið til sérstök kerti fyrir ýmsar aðrar verslanakeðjur, eins og til dæmis bóka- og gjafavörubúðina Barnes & Noble.“

Hönnun og framleiðsla

54Celsius selur vörur í gegnum heimasíðu sína en Þórunn fer gjarnan utan á sölusýningar og selur þá vörur sínar í búðir í gegnum þær.

„Við höfum líka verið dreifingaraðilar fyrir vörur eftir aðra sem passa vel við okkar vörur. Við hönnum líka og þróum vörur sérstaklega fyrir fyrirtæki, hvort sem það eru kerti eða eitthvað annað. Það er í raun nýtt hliðarfyriræki, sem við erum að setja formlega á laggirnar þessa dagana og kallast Newness Factory,“ segir hún.

„Ég ferðast mikið til að skoða framleiðsluna því stundum er gott að skoða prótótýpuna og sjá hvernig framleiðslan er. Nýtilkomnir Kína-tollar í Bandaríkjunum eru ákveðin áskorun, en við erum núna farin að skoða frekar framleiðslu á Indlandi og í Indónesíu,“ segir hún og nefnir að þau séu með umboðsmenn sem hjálpa til við að finna staði fyrir framleiðslu og sem sinna gæðaeftirliti.

Þórunn segir sérstaka tilfinningu fylgja því að ferðast til framandi landa og sjá sínar vörur framleiddar í verksmiðjum hinum megin á hnettinum.

„Ég hafði í raun bara séð nokkur kerti saman í hillum en þegar ég fór í verksmiðju í Kína sá ég heilu stæðurnar af Pyropet-kertum. Þá sá ég hvernig þetta virkar í fjöldaframleiðslu og jafnframt kvikna alltaf nýjar hugmyndir þegar ég sé hvernig framleiðslan fer fram. Mér finnst líka bara mikilvægt að sjá með eigin augum framleiðsluna, aðstöðuna og hitta fólkið sem við erum að vinna með.“

Skilaboð sem birtast

Þórunn hefur einnig hannað skemmtileg kerti með földum skilaboðum sem koma í ljós þegar þau brenna. Einnig hannaði hún afmæliskerti fyrir kökur með skemmtilegum óskum á. Eins hannaði Þórunn kertið Heart Burn, en þar má sjá hönd sem heldur á hjarta sem svo „blæðir“ úr þegar það brennur.

Kertið Heart Burn er afar fallegt. Það blæðir úr hjartanu …
Kertið Heart Burn er afar fallegt. Það blæðir úr hjartanu þegar það brennur. Ljósmynd/Þórunn Árnadóttir

„Við erum svolítið að skoða hvað er kerti og hvernig er hægt að nýta aðferðir til að búa til eitthvað allt annað en venjulegt kerti sem brennur og hverfur.“

Í vinnustofudvöl sinni hefur Þórunn verið að endurskoða ilmstrá, sem oftast birtast sem tréstrá sem standa í flösku með ilmvökva. Þegar vökvinn sogast upp í viðinn, berst ilmur um rýmið.

„Það sem ég er að gera er að endurskoða þessa virkni, hvernig nota má pappír til þess að soga í sig ilmvökvann og dreifa um rýmið.“

Ítarlegt viðtal er við Þórunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka