Ágengt þjófalið á ferðamannastöðum

Þjófagengi frá Austur-Evrópu eru farin að gera sig gildandi á …
Þjófagengi frá Austur-Evrópu eru farin að gera sig gildandi á ferðamannastöðum sem og í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur verið talsvert vandamál hjá okkur undanfarið og töluvert um tilkynningar um svona mál,“ segir Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Morgunblaðið, spurður um ágang vasaþjófa í umdæminu að undanförnu.

Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá mikilli ásókn vasaþjófa á Þingvöllum sem stunda þar iðju sína með skipulögðum hætti. Ágangur vasaþjófa hefur verið talsverður á fleiri ferðamannastöðum á Suðurlandi, svo sem við Gullfoss og Geysi, og staðfestir Þorsteinn að svo sé.

Þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varað við þjófum sem hafa verið á ferðinni á miðborgarsvæðinu undanfarna daga. Þeir eru sagðir erlendir ríkisborgarar og herja á ferðamenn og hafa borist tilkynningar um slík mál við Hallgrímskirkju og í nágrenni hennar. Segir lögreglan að þjófarnir séu gjarnan saman tveir eða fleiri og steli úr vösum, töskum og bakpokum fólks, bæði á almannafæri og gististöðum. Sjálfir séu þeir klæddir eins og ferðamenn og gjarnan með bakpoka meðferðis.

Dreifa athygli ferðamanna

Segir lögreglan að talið sé að þetta séu sömu þjófar og hafi nýlega verið á þekktum ferðamannastöðum á Suðurlandi og stolið þar með sama hætti. Þar dreifðu þeir t.d. athygli ferðamanna með því að bjóðast til að taka af þeim myndir, en meðan á því stóð létu þjófarnir greipar sópa.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert