„Allt við þessa heimsókn var óviðeigandi“

Þorgeður Katrín segir gagnkvæma virðingu og samvinnu bandamanna einu leiðina …
Þorgeður Katrín segir gagnkvæma virðingu og samvinnu bandamanna einu leiðina fram á við. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/AFP

„Þetta hefur allt verið óviðeigandi. Allt við þessa heimsókn var óviðeigandi að mínu mati. Á tíma sem er viðkvæmur í Grænlandi en það var ekki búið að mynda stjórn.“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og vísar þar til heimsóknar J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna til Græn­lands.

Breytt af öryggisástæðum

Heimsóknin var upphaflega sögð „menn­ing­ar­ferð“ eig­in­konu Vance, Ushu, þar sem hún skyldi fylgjast með hunda­sleðakeppni.

Aft­ur á móti var heimsókninni breytt af öryggisástæðum vegna fyr­ir­hugaðra mót­mæla.

Hjón­in vörðu ein­ung­is nokkr­um klukku­stund­um á Græn­landi og heim­sóttu aðeins geim­herstöðina Pituffik og eld­flauga­varn­ar­stöð um 1.500 kíló­metra frá höfuðborg­inni Nuuk, ásamt öðrum emb­ætt­is­mönn­um Banda­ríkj­anna.

Þorgerður Katrín setti nokkur vel valin orð á samfélagsmiðilinn X í tilefni heimsóknarinnar.

Kallar eftir gagnkvæmri virðingu og samvinnu

„Danmörk og Grænland eru í norrænu fjölskyldunni. Líkt og Ísland og önnur Norðurlönd er allt ríki Danmerkur hluti af NATO, þar sem bandamenn vinna þétt saman við að styrkja öryggi á Norðurslóðum. Gagnkvæm virðing og samvinna bandamanna er eina leiðin fram á við,“ skrifaði Þorgerður.

Segir hún í samtali við mbl.is að Norðurlöndin séu einfaldlega að sýna samstöðu með Grænlandi og Danmörku og undirstrika að um sé að ræða sterkan samhentan hóp sem byggi á grundvallargildum um fullveldi þjóða, að virða friðhelgi landamæra og alþjóðalög.

„Að hvort tveggja sé virkt og virt. Það veitir ekki að því að undirstrika þetta,“ segir ráðherra.

„Við erum að reyna að tala þannig að það verði enn dyr opnar til að gera það sem vinir einmitt gera. Setjast niður og leysa málin. Það höfum við NATO-þjóðirnar gert farsællega í meira en 75 ár síðan NATO var stofnað.“

J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna kveður Pituffik geimstöðina á Grænlandi í …
J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna kveður Pituffik geimstöðina á Grænlandi í gær. AFP/Jim Watson

Rasmussen kann ekki við tóninn

Við færslu sína hengdi Þorgerður Katrín skilaboð Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur til Bandaríkjamanna.

Þar segir Lars að hann kunni ekki við þann tón sem kemur frá Bandaríkjamönnum en segir að Danir séu tilbúnir að ræða um viðveru amerísks herliðs á Grænlandi.

Danir virði þá þörf Bandaríkjamanna til að auka við herlið sitt á Grænlandi. Býður hann Bandaríkjamönnum til samtals um stöðuna.

Minnir Rasmussen Bandaríkjamenn að lokum á að Grænland sé hluti af NATO og varnarsvæði NATO nái til Grænlands.

Þorgerður segir Norðurlöndin hafa staðið saman um þessi grundvallargildi og það sé alveg skýrt að Norðurlandaþjóðirnar séu að undirstrika það.

„Lars Lökke með sinni yfirlýsingu og við kollegar hans að taka undir með honum.“

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna sendu allir frá sér álíka færslu í dag. Espen Barth Eide fyrir Noreg, Maria Malmer Stenergard fyrir Svíþjóð, Elina Valtonen fyrir Finnland og Þorgerður Katrín fyrir Ísland.

Engin merki um breytta stefnu

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor skrifar á facebook að líklega sé tímaspursmál hvenær banda­rísk­ir ráðamenn munu tala um mik­il­vægi þess að þeir ráði yfir Íslandi.

Þorgerður Katrín segir aðspurð engin merki af Bandaríkjanna hálfu að stefna þeirra gagnvart Íslandi sé að breytast eða stefna okkar gagnvart Bandaríkjunum.

„Þetta hefur verið fram til þessa gott samstarf og ef eitthvað er hefur það aukist og styrkst síðustu 6-8 árin. Við höfum séð það,“ segir ráðherrann.

„Það breytir því ekki að við þurfum að vera undirbúin undir alls kyns sviðsmyndir en fyrst og síðast þurfum við að vera á varðbergi gagnvart Rússum, það eru þeir sem eru helsta ógnin.“

Þorgerður Katrín segir grundvallarstoðir Íslands í vörnum og öryggi í dag vera tvær. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin.

Ýta undir samstarf

„Það er hins vegar alveg ljóst og við höfum verið að ýta undir tvíhliða og marghliða samstarf eins og með Kanada, Noregi og Bretlandi.“

Segir hún þessar þjóðir hafa starfað með Íslandi, til að mynda Noregur og Bretland í gegnum JEF (Joint Expeditionary Force), fjölþjóðlega hernaðarsamvinnu sem miðar af hröðu viðbragði og leiðangursaðgerðum.

Þá sé Íslandi í virku samstarfi innan Norðurlandanna, NORDEFCO, sem á að styrkja landvarnir og vinna að skilvirkum og sameiginlausnum ríkjanna.

„Við munum þá huga að því að fara í sambærilegt samstarf og Norðmenn gerðu við Evrópusambandið á sviði öryggis og varnarmála.

Þetta eru allt þættir sem koma til með að fjölga stoðunum undir okkar varnar- og öryggisstefnu og við erum að spýta í lófana með. Það er alveg ljóst af þróun mála á Grænlandi að það veitir ekki af.“

Gjörbreytt heimsmynd frá stjórnarsáttmála

Segir ráðherrann að nú þegar fókusinn sé að færast meira á Norður-Atlantshafið þurfi Ísland að gera meira, líkt og aðrar Evrópuþjóðir.

„Við erum að stíga mjög ákveðin og sýnileg skref í þá veru.

Við settum öryggis- og varnarmál á dagskrá í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar meðvituð um þá breyttu heimsmynd sem nú er og hún hefur meira að segja gjörbreyst frá þeim tíma eftir að við tókum við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka