Baldur: Bandaríkin vilja ráða yfir Íslandi

Baldur veltir fyrir sér alþjóðamálunum.
Baldur veltir fyrir sér alþjóðamálunum. Samsett mynd/AFP/Brendan Smialowsk/mbl.is/Eggert

„Það er líklega eingöngu tímaspursmál hvenær bandarískir ráðamenn munu tala um mikilvægi þess að þeir ráði yfir Íslandi,“ skrifar Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, í færslu á Facebook. 

Tilefnið er áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi. 

Baldur segir það lengi hafa legið fyrir að Bandaríkjamenn telji að Ísland sé mikilvægt fyrir varnir þeirra og sé á yfirráðasvæði þess. „Það kæmi ekki á óvart að krafa nýrra valdhafa yrði afdráttarlaus: Ísland á að vera leppríki Bandaríkjanna - rétt eins og önnur ríki á áhrifasvæði þess,“ skrifar Baldur. 

Segir Baldur Bandaríkin hingað til hafa alfarið ráðið hvaða hernaðarlegur …
Segir Baldur Bandaríkin hingað til hafa alfarið ráðið hvaða hernaðarlegur viðbúnaður sé hér á landi. Það muni ekki breytast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reki útþennslustefnu

Jafnframt segir Baldur nýja valdhafa í Bandaríkjunum reka afdráttarlausa útþennslustefnu „Um það þarf enginn lengur að efast. Þeir segja það sjálfir berum orðum. Þeir ætla að tryggja að Bandaríkin ráði stjórnarstefnu ríkja í næsta nágrenni sínu. Val ríkja í Norður- og Mið-Ameríku liggur í því að verða hluti af Bandaríkjunum eða leppríki þess.“

Segir Baldur Bandaríkin hingað til hafa alfarið ráðið hvaða hernaðarlegur viðbúnaður sé hér á landi. Það muni ekki breytast. 

„Stjórnvöld í Bandaríkjunum munu ekki sætta sig við neitt annað. Þau tryggðu einnig með afdráttarlausum yfirlýsingum Pence varaforseta Trumps á hans fyrra kjörtímabili að Ísland tæki ekki boði kínverska stjórnvalda um þátttöku í Belti og Braut - stórtæku samgöngu- og viðskiptaverkefni.

Stóra spurning núna er hvort að nýir valdhafar í Washington muni krefjast þess að Ísland snúi sér alfarið að Bandaríkjunum og láti allar hugmyndir um nánari varnar- og efnahagssamvinnu og viðskipti við önnur Evrópuríki lönd og leið,“ skrifar Baldur. 

Trump hefur lýst yfir áhuga sínum á Grænlandi.
Trump hefur lýst yfir áhuga sínum á Grænlandi. AFP/Saul Loeb

Munu Bandaríkin skipta sér að þjóðaratkvæðagreiðslunni?

Þá veltir Baldur fyrir sér hvort Bandaríkjamenn muni reyna að hafa áhrif á fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ríkisstjórnin hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu eigi síðar en árið 2027.

„Bandaríkin hafa þar til í forsetatíð Trumps ekki bara stutt nánari efnahagssamvinnu Evrópuríkja heldur þrýst mjög á nánari samvinnu ríkja innan Evrópusambandsins. Nú kveður við nýjan tón. Nýir valdhafar telja að Evrópusambandið vinni gegn hagsmunum Bandaríkjanna og að Grænland eigi að tilheyra Bandaríkjnum. Í ljósi þessa kæmi ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld beittu sér gegn því að Íslandi tæki aftur upp aðildarviðræðurnar við ESB,“ skrifar Baldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka