Ekki kemur til þess að innviðagjald sem leggst á farþega skemmtiferðaskipa sem koma hingað til lands verði endurskoðað, þrátt fyrir óskir fulltrúa útgerða skemmtiferðaskipanna þar um.
Þetta staðfestir Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland, í samtali við Morgunblaðið en samtökunum barst tilkynning þessa efnis frá atvinnuvegaráðherra í vikunni.
Cruise Iceland eru samtök hafna á Íslandi og þeirra fyrirtækja sem þjónusta skipin hér.
Fulltrúar skipafélaganna funduðu með atvinnuvegaráðherra fyrir mánuði þar sem þeir óskuðu þess að gjaldið yrði ekki lagt á strax af fullum þunga en því þess í stað þrepaskipt, sem gæfi skipafélögunum tíma til aðlögunar, en á það var ekki hlustað.
„Nú er fyrsta skipið komið til landsins og farþegarnir búnir að borga fargjaldið fyrir löngu og munu skipafélögin því sjálf bera kostnaðinn af innviðagjaldinu í ár og á næsta ári, að hluta, af fullum þunga,“ segir Sigurður Jökull.
Gjaldið sem nemur 2.500 krónum leggst á hvern farþega á sólarhring, en skipin eru að jafnaði 5-7 daga við landið í senn. Segir Sigurður Jökull að Norwegian Cruise Line, sem er með tvö skip í reglulegum ferðum hingað til lands, þurfi að greiða gjald fyrir farþegana úr eigin vasa sem nemi á bilinu 400-500 milljónum króna í ár.
„Skipafélögin lýsa yfir gífurlegum vonbrigðum með þessa niðurstöðu. Þau væntu þess að ný ríkisstjórn myndi vera með meiri fyrirsjáanleika og skynsemi í verkum sínum, en það er ekki svo. Því miður,“ segir hann.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.