Gengur um bæinn með KR-húfu

„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draumum …
„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draumum mínum,“ segir Alexandre Labruffe. mbl.is/Ásdís

Í höfuðstöðvum Alliance Française í Tryggvagötu bíður blaðamanns nýi framkvæmdastjórinn, Alexandre Labruffe, en hann hefur nú búið hér í hálft ár. Í skemmtilegu spjalli segir Alexandre frá dvöl sinni á Íslandi, bókum sínum, kynningarátaki Alliance Française og dvöl sinni í Wuhan á tímum kórónuveirunnar. Alexandre vill gjarnan læra íslensku og hyggst jafnvel skrifa glæpasögu sem gerist á Íslandi, enda eru þær mjög vinsælar í Frakklandi!

Lokaður inni í 155 daga

„Ég hafði aldrei komið áður til Íslands, nema í draumum mínum. Sem barn dreymdi mig um að koma hingað en ég endaði í Kína og bjó þar allt í allt í tíu ár þar sem ég vann fyrir utanríkisþjónustuna og sem framkvæmdastjóri Alliance Française. Ég tala kínversku sem er mun auðveldari en íslenska,“ segir Alexandre og hlær.

„Ég byrjaði að vinna fyrir konsúlatið að koma á fót Alliance Française í Kína í „lítilli“ borg rétt hjá Shanghai,“ segir hann, en borgin, Hangzhou, er lítil á kínverskan mælikvarða en telur ellefu milljónir íbúa.

„Á þessum tíma var mikill áhugi á franskri menningu og tungu og margir höfðu hug á að flytja til frönskumælandi landa eins og til Kanada, Frakklands, Belgíu eða Afríkulanda þar sem franska er töluð, en Kína vinnur mikið með Afríku. Þegar ég var þarna fyrir sextán árum var Kína frjálsari en í dag,“ útskýrir Alexandre.

„Fólkið í Kína er mjög indælt en í dag er erfitt fyrir listamenn sem aðhyllast frjálsa hugsun að búa þar.“

Alexandre býr yfir langri reynslu að kenna fólki allt um franska menningu.

„Hugmyndin að baki Alliance Française er að kenna fólki frönsku, en einnig að skipuleggja viðburði, eins og frönsku kvikmyndahátíðina sem var nýlega hér í Reykjavík.“

Alexandre bjó í Wuhan í upphafi árs 2020 þegar kórónuveiran fór á kreik, en eins og alþjóð man mátti rekja upphaf hennar einmitt til þeirrar borgar.

„Ég var þá að vinna fyrir franska konúsulatið í Wuhan þar sem ég sá um menningarmál og átti að skipuleggja viðburði. Ég kom þangað þremur mánuðum fyrir vírusinn og kannski kom ég með hann sjálfur frá París, ég veit það ekki,“ segir hann og hlær.

Alexandre lék látbragðsleikara í kynningarmyndbandi sem á að höfða til …
Alexandre lék látbragðsleikara í kynningarmyndbandi sem á að höfða til ungs fólks og fá það til að fræðast um franska menningu og tungu.

„Þetta voru erfiðir tímar, sorglegir og tilfinningaþrungnir en einnig áhugaverðir. Það var öllu lokað, í nokkrum lotum. Fyrst var öllu lokað í sex mánuði; frá janúar 2020 og fram í maí og þá fór ég til Frakklands en kom svo aftur. Eftir það var mjög erfitt að vera þarna því oft var öllu skellt í lás út af engu; oft vegna gruns um smit hjá einhverjum. Ef grunur lék á smiti hjá einum einstaklingi í einhverri blokk, var kannski öll blokkin sett í sóttkví eða jafnvel allt hverfið. Ég var í heildina 155 daga læstur inni í herbergi mínu eða á hóteli, á fjórum árum. Og þá er ég ekki að telja með dagana í fyrstu bylgjunni,“ segir hann.

Ég skynja andrúmsloftið

Alexandre segist alltaf hafa lesið mikið, allt frá barnæsku. Bók sem hann las sem strákur hafði áhrif á þá ákvörðun hans að koma til Íslands.

„Það er algjör draumur að vera kominn til Íslands. Ég las sem barn Ferðina að miðju jarðar eftir Jules Verne og skildi það þegar ég kom hingað að vegna þess að ég hafði lesið þessa bók dreymdi mig alltaf um að koma til Íslands. Fyrir ári var ég beðinn um, hjá ráðuneytinu, að velja fjóra áfangastaði sem ég gæti hugsað mér að flytja til og setti ég Ísland á blað, reyndar í fjórða sæti en það var taktík til að fá að komast hingað,“ segir Alexandre og hlær. Hann segist hafa verið mjög ánægður þegar það gekk eftir, en hann er ráðinn hjá Alliance Française til fjögurra ára.

„Hér fer ég í sund, en ég bý ekki svo langt frá Vesturbæjarlauginni. Hér eru sundlaugar ólíkar þeim í Frakklandi; hér eru þær utandyra og allt annað hitastig á vatninu. Að fara í sund hér er eins og að fara á kaffihús eða bar, því fólk hittist þar til að spjalla. Þar er gott að finna fyrir andrúmsloftinu því þótt ég tali ekki íslensku þá skynja ég andrúmsloftið. Mitt markmið er að heimsækja allar 120 sundlaugar landsins,“ segir Alexandre.

Nýlega fór í loftið á samfélagsmiðlum nýtt myndband til að hvetja ungt fólk til að læra frönsku, en átakið Franska er málið var sett af stað nú í mars. 20. mars er alþjóðlegur dagur franskrar tungu en allur marsmánuður er helgaður franskri tungu hjá Alliance Française.

„Franska er leið fólks inn í franska menningu. Það er mikilvægt fyrir unga fólkið að komast meira inn í menningu og hætta að hanga í símum sínum. Við unnum með franska sendiráðinu að skipuleggja átak svo fólk fái áhuga á franskri tungu, en franska er fyrir alla. Franska sendiráðið gerði þetta skemmtilega myndband þar sem sjá má unga konu sem uppgötvar að franska tungan er alls staðar. Þetta er góð leið til að segja ungu fólki að menning er kúl,“ segir hann.

„Í myndbandinu er einn látbragðsleikari og ég veit ekki af hverju, en ég var beðinn um að leika hann. En sem betur fer er ég óþekkjanlegur,“ segir hann kíminn.

Norðurljósaappið sem pípti

Er það satt að þú gangir um bæinn með KR-trefil?

„Nei, þetta er húfa! Mér var sagt að það væri gott að ganga með hana í Vesturbænum en ekki endilega annars staðar,“ segir hann og hlær.

„Þegar ég kom til landsins í september ákvað ég þrjá hluti. Fyrst var að fara í sund og annað að hlaða niður norðurljósaappi. Talandi um appið, þá var það að gera mig brjálaðan í byrjun því það pípti á klukkutíma fresti og ég hljóp stöðugt út úr húsi en sá ekkert fyrir skýjum. En ég hef róast aðeins þegar það pípir og ég hef náð að sjá norðurljósin nokkrum sinnum sem var alveg stórfenglegt,“ segir hann og segir að það þriðja sem hann ákvað að gera hafi verið að fara á íslenska íþróttaleiki.

„Ég fór á leik KR og Vestmannaeyja. Ég vil forðast að gera túristalega hluti, því ég vil finna alvöru íslenskt andrúmsloft og hvað er þá betra en að fara á íþróttaleik með heimamönnum? Ég skil auðvitað ekkert það sem fólk er að tala um í kringum mig, en það er allt í lagi; ég upplifi stemninguna og andrúmsloftið,“ segir Alexandre.

„Ég fer líka á leiksýningar, í bíó, á bari og kaffihús til að upplifa menninguna. Mig langar til að læra íslensku en framburðurinn er svo erfiður!“

Ítarlegt viðtal er við Alexandre í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert