Kúnstpása hefur verið valdeflandi

Hlynur Jónasson, umsjónarmaður Kúnstpásu.
Hlynur Jónasson, umsjónarmaður Kúnstpásu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það að finna sig sem listamenn úti í bæ hefur verið valdeflandi fyrir fólkið okkar. Í stað þess að hugsa og tala um veikindi sín hefur það verið að skapa, finna sig og njóta. Að mínu viti var það algjört lykilatriði að færa verkefnið út af spítalanum og freista þess þannig að byggja brú á milli fólks. Ég veit að samstarfsaðilar okkar segja það sama. Það er mjög ánægjulegt hversu sterkt við höfum fundið fyrir því hjá þátttakendum að þeir njóta þess að vera meðal jafningja. Við sjáum mikinn mun á fólkinu okkar eftir að það hefur tekið þátt í Kúnstpásu.“

Þetta segir Hlynur Jónasson, verkefnastjóri á geðsviði Landspítala og umsjónarmaður verkefnisins Kúnstpásu, sem hefur það hlutverk að tengja geðendurhæfingu við skapandi greinar. 

Og þegar námskeiðunum lýkur spyrja yfirleitt allir: „Hvað næst?“

Kúnstpása er ný af nálinni. Fyrsti veturinn er ekki liðinn en eigi að síður hafa þegar 40 manns tekið þátt. „Það segir sína sögu,“ segir Hlynur. „Komir þú aftur eftir ár og spyrjir verður svarið ábyggilega: Yfir hundrað manns.“

Veggspjald sem sköpunarstofan Brandenburg hannaði fyrir verkefnið.
Veggspjald sem sköpunarstofan Brandenburg hannaði fyrir verkefnið.

Að sögn Hlyns eru sumir þátttakendur með bakgrunn í listum, aðrir ekki. Þá hafi margir beðið eftir tækifæri af þessu tagi enda geta námskeið í listum verið dýr og ekki alltaf auðvelt að komast að. „Nú þegar fólk er komið inn fyrir dyrnar kviknar vonandi einhver neisti og það heldur áfram á sömu braut, enda eykur það bæði sjálfstraust og styrkir sjálfsmyndina. Það hefur reynst mjög farsælt að fara með verkefnið út af spítalanum og fólkið okkar er sammála um að því líði mjög vel í þessu umhverfi.“

Ótrúlega fallegt viðmót

 Hann segir heilmikla hæfileika þegar hafa komið í ljós, sem rík ástæða sé til að rækta áfram. „Margir í þessum 40 manna hópi hafa sprungið út nú þegar og það er vonandi vísir að einhverju meira. Ég get fullyrt að leiðbeinendurnir eru mér sammála um það. Líklegra en hitt er að við vanmetum hæfileikana, enda er fólk misjafnlega fljótt að koma út úr skelinni.“

Meðal leiðbeinenda á námskeiðunum má nefna Nínu Dögg Filippusdóttur leikkonu, Steinunni Camillu Sigurðardóttur tónlistarkonu og Þorgrím Þráinsson rithöfund. „Viðmót þeirra hefur verið ótrúlega fallegt og þau verið mjög jákvæð í garð verkefnisins. Þannig sagði Nína Dögg við mig nýlega að við yrðum að halda þessu áfram. Annað kæmi ekki til greina. Þetta á almennt við um starfsfólk leikhúsanna, það hefur stutt vel við verkefnið og á hrós skilið. Það er mikil hvatning að heyra svona lagað og eflir mann til dáða,“ segir Hlynur.

Nánar er rætt við Hlyn og fjallað um Kúnstpásu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert