Sex F-18 orrustuþotur verða sendar frá Spáni til Íslands á þessu ári, hugsanlega seinni part sumars. Spánverjar munu þá taka við loftrýmisgæslu á Íslandi. Þoturnar verða hér á landi í sex vikur.
Frá þessu greinir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is en ráðherra er stödd á Spáni þar sem hún meðal annars hefur átt fundi með utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Spánar.
„Þetta er að gerast í fyrsta sinn og það er ánægjulegt að þau staðfestu það,“ segir Þorgerður Katrín og vísar þar til fundar síns með Margaritu Robles, varnarmálaráðherra Spánar.
Segir Þorgerður Spánverja koma til Íslands því Ísland sé talið gott gestgjafaríki.
„Þetta er hluti af skuldbindingum hvers ríkis og þetta er meðal annars framlag Spánverja. Það kostar heilmikið að fara með sex vélar til Íslands og vera þar í sex vikur. Við erum að tala um að slíkt kosti milljarða en þetta svæði hjá okkur er frábært fyrir flugsveitir til æfinga.
Þess vegna þurfum við að efla það og það er gott að geta sagt þessum þjóðum að við erum með góða aðstöðu sem við erum að endurnýja og uppfæra. Það skiptir gríðarlega miklu máli og er jákvætt í þessari mynd,“ segir Þorgerður Katrín.
Þá segir hún þær Robles hafa farið á fundi sínum yfir góð samskipti Íslands og Spánar og samvinnu ríkjanna tveggja.
Hún segir ánægjulegt að fá Spánverja til landsins og segir þá Tékkland koma í maí.
„Þessar þjóðir eru ekki að koma óboðnar heim til Íslands – þeim er boðið skilurðu,“ segir ráðherra og vísar þar til þeirra takta sem bandamenn okkar í vestri hafa viðhaft gagnvart Grænlandi.
Aðspurð segir Þorgerður að staða Grænlands hafi verið rædd en það hafi nú bara verið gert á diplómatískan hátt og virðist hún ekki vilja tjá sig frekar um sýn Spánverja á þá deilu.
Þorgerður Katrín átti einnig fund með José Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar. Þann fund segir hún hafa verið löngu skipulagðan en þar hafi meðal annars verið rætt um opnun sendiráðs Íslands á Spáni.
Bindur ráðherra vonir við að það komi til með að takast í ágúst en segir stofnun sendiráðs krefjast ákveðins undirbúnings og gagnkvæms skilnings.
„Ég sagði honum að ég vænti þess að Spánverjar opni líka formlega sendiráð á Íslandi. Þeir hafa verið með mjög öflugan fulltrúa en að sjálfsögðu viljum við sjá þá opna sendiráð heima líka. Það var tekið afar jákvætt í það,“ segir Þorgerður.
Þá segist hún hafa haldið áfram þeirri vegferð að gæta að hagsmunum Íslendinga varðandi hugsanlegt tollastríð milli Evrópu og Bandaríkjanna og segir að eins og alltaf hafi verið sýndur mjög mikill skilningur á sjónarmiði Íslands.
„Svo fórum við yfir stöðuna í Grænlandi og þessa geópólitísku stöðu sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir sem NATO-ríki.
Spánverjar voru eins og við að byrja þriggja ára tímabil í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar erum við með svipaðar áherslur.
Þjóðir sem eru sammála um það að þegar hallar undan fæti þegar kemur að mannréttindum allra í heiminum hafa þjóðir eins og Ísland og Spánn mikilvægar raddir fyrir þessa hópa.
Svo þrátt fyrir alls konar hluti erum við Íslendingar að sinna okkar vina- og bandalagsþjóðum í Evrópu líka.“