Síðasta hveitikornið malað á Íslandi

Kornax-verksmiðjan við Korngarða hefur nú hætt starfsemi sinni, og er …
Kornax-verksmiðjan við Korngarða hefur nú hætt starfsemi sinni, og er nú ekkert hveiti malað hér á landi. mbl.is/Karítas

Búið er að loka Kornax-verksmiðjunni við Korngarða og lýkur þar með 40 ára sögu einu hveitimyllu landsins.

Rannveig Hrólfsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri Líflands, tók á móti blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins í gær, sýndi þeim verksmiðjuna og lýsti því hvernig starfsemin fór fram en nú er lagerinn tómur og síðustu hveitipakkarnir bíða þess að verða teknir af færibandinu.

Hjá Kornaxi er eina rannsóknarstofan fyrir hveiti í landinu.
Hjá Kornaxi er eina rannsóknarstofan fyrir hveiti í landinu. mbl.is/Karítas

Þá er hjá Kornaxi eina rannsóknarstofan fyrir hveiti í landinu.

„Mælingarnar á rannsóknarstofunni eru til þess að geta blandað saman mismunandi tegundum af hveiti og fengið út þann eiginleika sem við erum að selja, t.d. er ein tegund til að baka kex, önnur fyrir kökur, önnur fyrir brauð og enn önnur fyrir pitsur,“ segir Rannveig.

Síðustu hveitipakkarnir á færibandi Kornax við Sundahöfn.
Síðustu hveitipakkarnir á færibandi Kornax við Sundahöfn. mbl.is/Karítas

Ráðherra hvetur til kæru

Kornax hefur í fimm ár leitað leiða til að fá starfsleyfi á Grundartanga, en því var hafnað af heilbrigðisnefnd Vesturlands. Kornax hefur verið í leiguhúsnæði Faxaflóahafna við Sundabraut sem hefur nú sagt fyrirtækinu upp húsaleigunni. Ástæðan er sögð af öryggisástæðum og til standi að rífa húsin. Kornax hefur brugðist við með því að flytja allt hveiti til landsins fullunnið.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur ekki fundað með eigendum Líflands sem eru eigendur Kornax, en látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að fyrirtækið geti sótt aftur um starfsleyfi. Hún hefur sagt að ef starfsleyfinu verði aftur synjað geti Lífland kært ákvörðunina og þá muni ráðuneytið grípa til nauðsynlegra aðgerða.

Ráðherrann hefur ekki veitt Morgunblaðinu viðtal vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en mörgum spurningum er ósvarað, ekki síst eftir þau ummæli sem hún hefur látið falla vegna málsins.

Hanna Katrín hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að …
Hanna Katrín hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að fyrirtækið geti sótt aftur um starfsleyfi. Hún hefur sagt að ef starfsleyfinu verði aftur synjað geti Lífland kært ákvörðunina og þá muni ráðuneytið grípa til nauðsynlegra aðgerða. mbl.is/Karítas

Skrýtið að fara gegn lögunum

Þorsteinn Narfason heilbrigðisfulltrúi Vesturlands var spurður hvort ráðherra hefði tök á því að grípa inn í og veita starfsleyfi fram hjá heilbrigðisnefndinni ef synjað yrði um leyfi öðru sinni.

„Ég held ekki, enda væri það skrýtið ef hún færi gegn löggjöfinni sem Alþingi setur. Við erum tilbúin að ræða málið við ráðuneytið ef það er vilji til þess. Ráðuneyti og heilbrigðisnefndir eiga ekki að vera einhverjir andstæðir pólar, því að við vinnum eftir sömu löggjöfinni. Sumt sem sagt hefur verið er ekki alveg rétt og þess vegna er mikilvægt að fara yfir málin og stilla saman strengi og finna bestu mögulegu lausn, líka fyrir fyrirtækið ef það hefur áhuga á að starfa áfram.“

Lesa má umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka