Unglingur var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur fyrir að hrækja á lögreglumann. Hann fór heim í fylgd forráðamanns að viðræðum loknum.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Þá voru tveir unglingar handteknir fyrir slagsmál og fíkniefnamisferli. Einnig voru tveir handteknir fyrir þjófnað úr verslun í hverfi 108. Einn var handtekinn í sama hverfi, en hann er grunaður um sölu fíkniefna og fleiri brot og var hann vistaður í fangaklefa.
Jafnframt sinnti lögregla eftirliti með dyravörðum á hinum ýmsu stöðum miðbæjarins.