Valdbeiting, handtökur og skotið úr byssum

Nemar í lögreglufræðum hljóta þjálfun í valdbeitingu, læra um handtökur …
Nemar í lögreglufræðum hljóta þjálfun í valdbeitingu, læra um handtökur og að skjóta úr byssum. Samsett mynd/mbl.is/Karítas

Þau Kristófer Daði Davíðsson, Maren Eir Halldórsdóttir og Eva María Jónsdóttir eru lögreglufræðinemar á fyrsta ári.

Eiga þau það sameiginlegt að vera af Vesturlandi. Kristófer er úr Borgarfirði, Maren frá Hvanneyri og Eva María frá Akranesi.

Kristófer er á 21. aldursári, Maren á 22. og Eva María á 24. aldursári.

Gamall draumur að rætast

Hvað varð til þess að þetta unga fólk af Vesturlandi ákvað að leggja fyrir sig lögreglufræði?

Kristófer er fyrstur til svars. Hann segist hafa viljað vera lögga þegar hann var á barnsaldri en svo eftir framhaldsskóla hafi hann ekki alveg vitað hvað hann ætti að gera og fannst spennandi að prófa námið í lögreglufræðum.

„Þetta er enn þá skemmtilegt svo maður er enn þá í þessu,“ segir hann.

Menntasetrið býr yfir glæsilegum valdbeitingarhermi. Lögreglufræðinemar skjóta úr lasertengdum skammbyssum.
Menntasetrið býr yfir glæsilegum valdbeitingarhermi. Lögreglufræðinemar skjóta úr lasertengdum skammbyssum. mbl.is/Karítas

Maren segist alltaf hafa ætlað að vera lögga.

„Ég var bara 5 ára í búðinni með mömmu þegar ég sá lögguna. Ég sagðist strax ætla að verða lögga og hef bara staðið við það.“

Hún ákvað að fara í sjúkraflutningaskólann eftir stúdentsprófið og útskrifaðist sem sjúkraflutningamaður í maí.

„Eftir það ákvað ég að fara í lögguna. Það var alltaf planið.“

Maren Eir ræðir við blaðamann.
Maren Eir ræðir við blaðamann. mbl.is/Karítas

Eva María hóf störf hjá lögreglunni á Vesturlandi í maí á síðasta ári. Þá var hún búin að senda inn umsókn um skólavist og hafði lokið inntökuprófi.

„Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Við gerum aldrei það sama og lífið á vöktunum er mjög skemmtilegt og mikið félagslíf.

Það er bara alltaf gaman í vinnunni og ég hef aldrei upplifað jafn jákvætt viðmót í vinnu. Ég er alltaf peppuð fyrir hverjum degi,“ segir Eva María.

Gott að hafa upplifað starfið

Hún segir góðan kost að hafa upplifað lögreglustarfið sem starfandi lögreglumaður áður en hún fór í lögreglunámið.

„Ég er ekkert betur lærð en einhver annar sem er hér en kannski áttar maður sig betur á aðstæðunum þegar maður veit hvernig þetta er í raunveruleikanum.“

Eva María Jónsdóttir.
Eva María Jónsdóttir. mbl.is/Karítas

Maren hóf störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Segist hún auðvitað ekki kunna jafn mikið og þeir sem eru nú þegar menntaðir en þó lærist ótrúlega mikið á því að vera starfandi, sem gagnast henni í lögreglufræðunum.

Kristófer segist aftur á móti hafa komið alveg grænn inn í námið.

„En ég er kominn með vinnu hjá lögreglunni á Vesturlandi og byrja núna í sumar. Ég er mjög spenntur að byrja.“

Hann segist hafa fundið fyrir því að vissu leyti að hafa enga reynslu af lögreglustörfum þegar hann hóf nám.

„Sérstaklega á fyrstu önninni. Svo líður tíminn og fólk verður meira að jafningjum,“ segir hann.

Þjálfun í valdbeitingu.
Þjálfun í valdbeitingu. mbl.is/Karítas

Akureyri smá eins og útlönd

Eva María útskýrir uppbyggingu námsins fyrir blaðamanni. Um er að ræða tveggja ára fjarnám þar sem ein staðarlota fer fram á Akureyri á hverri önn sem og þrjár lotur í starfsnáminu í Reykjavík.

„Á Akureyri finnur hver og einn hópur sér gististað og það er mikið félagslíf í kringum þetta. Manni líður smá eins og maður sé að fara til útlanda þegar maður fer til Akureyrar. Við gerum alls konar saman. Tökum til dæmis æfingar, förum í sund og út að borða.“

Maren segir að í bóklega náminu sé mikið farið í samskipti og samskiptatengd fræði en í Reykjavík sé meira verklegt og þar sé farið yfir hvernig starf lögreglumannsins sé í raun og veru.

Maren Eir Halldórsdóttir.
Maren Eir Halldórsdóttir. mbl.is/Karítas

Kristófer minnist sérstaklega á raunhæfu verkefnin.

„Þegar kennarar eru til dæmis að leika mótaðila í einhverjum ákveðnum aðstæðum. Maður lærir mjög mikið á því. Eins getur maður eftir á farið yfir málin og hugsað hvað maður hafði getað gert betur.“

„Skemmtilegast er líka bara fólkið sem maður kynnist,“ segir Maren. „Maður verður svo náinn öllum, það eru rosalega góðir krakkar sem hérna og ég er mjög þakklát fyrir hópinn. Það er mjög skemmtilegt að mæta og hitta alla.“

Gott að komast frá símanum

Hún segir krakkanna í hópnum frekar ólíka en að hópurinn nái vel saman. „Það eru bara allir geggjaðir,“ segir hún og brosir út að eyrum.

Þá minnist hún á sérstök símahólf en að morgni dags setja lögreglufræðinemarnir símana sína í sérstakt hólf. „Maður er þá einhvern veginn bara hér,“ segir Maren.

Réttu tökin kennd á dýnu áður en haldið er út …
Réttu tökin kennd á dýnu áður en haldið er út í raunveruleikann. mbl.is/Karítas

Eva María nefnir símahólfin einnig og segir þau ótrúlega jákvæð. „Það er svo gott að komast frá símanum og bara njóta með fólki.“

Segist hún aldrei hafa verið í jafn skemmtilegu námi. Það sé svo jákvætt að vera í verklegu á móti bóklegu en ekki vera bara alltaf í skólastofu í lögfræðitíma eða eitthvað.

Kristófer minnist á valdbeitingu. Honum þykir hún mjög skemmtileg.

Eva María útskýrir að lögreglufræðinemarnir sæki tíma í valdbeitingu. Einnig æfi þau sig í skothermum og læri að umgangast vopn, bæði að halda á vopni og læra að beita því. „Svo förum við yfir handtökur.“

Farið yfir öryggisatriði í meðferð skotvopna.
Farið yfir öryggisatriði í meðferð skotvopna. mbl.is/Karítas

Þurfa ekki að vera læti

Hún segir algengan misskilning að það þurfi að vera læti við handtöku. Það sé alls ekki svo. Handtaka snúist meira um athöfnina að frelsissvipta einhvern með fyrirmælum. Þá sé til dæmis mikilvægt að kynna hinum handtekna réttarstöðu sína.

Hugsið þið ekkert um hætturnar í starfinu og að sífellt sé að birtast meiri harka í samfélaginu?

Kristófer segist ekki hugsa mikið um slíkt. Ég er náttúrulega bara úti á landi og það er ekkert mikið af þessu þar, segir hann og hlær.

Svo bætir hann því við að starfið byggi mjög mikið upp á trausti við kollegana og svo sé þeim auðvitað kennd valdbeiting og vel sé farið yfir allt til að tryggja þeirra öryggi.

Línurnar lagðar.
Línurnar lagðar. mbl.is/Karítas

Maren tekur undir orð Kristófers. „Maður getur ekki hugsað um það þannig. Maður getur ekki verið hræddur við það ef maður ætlar að starfa í þessu. Maður er alltaf með einhvern með sér og er aldrei einn á vettvangi.

Maður getur ekki verið hræddur við allt ef maður ætlar að vera í þessu, segir hún. Maður fær sálfræðiaðstoð líka, talar við félagana og hefur þennan félagastuðning,“ segir hún.

Eva María er á svipuðum nótum. Segist alltaf líða vel í vinnunni því hún vinni með mjög góðu fólki sem hún geti treyst á og þau séu alltaf til staðar.

„Maður er einhvern veginn aldrei óöruggur því samstarfsfélagarnir eru mjög góðir og traustvekjandi,“ segir Eva.

Lögreglufræðinemarnir kljást í vernduðu umhverfi.
Lögreglufræðinemarnir kljást í vernduðu umhverfi. mbl.is/Karítas

Krefjandi en gefandi starf

„Starfið getur verið krefjandi og erfitt einnig en það gefur mönnum bara breiðara bak,“ segir Kristófer.

„Fyrst og fremst er starfið samt gefandi. Að geta hjálpað fólki og vera á vinnustað þar sem maður er ekki alltaf að gera það sama endalaust. Mikil fjölbreytni heillar mig svolítið.“

Eva María bætir því við að mjög jákvætt sé að vinna á vöktum í löggunni.

„Ef stendur þannig á fáum við klukkutíma í hreyfingu á vaktinni. Ég æfi CrossFit og það er ekkert smá jákvætt að geta hoppað og fengið útrás í klukkutíma.

Maður mætir kannski í vinnu ekki alveg til í þetta en svo fær maður smá útrás og er alveg tilbúin í daginn.“

Kristófer Daði Davíðsson.
Kristófer Daði Davíðsson. mbl.is/Karítas

Hafið þið velt fyrir ykkur hvað ykkur langar að gera í löggunni? Hvernig löggur þið viljið vera?

„Mig langar að prófa mjög margt. Mig langar að prófa að vinna úti á landi og kannski líka í bænum eða til dæmis á Suðurnesjum eða eitthvað,“ segir Kristófer.

Maren segist vera að reyna að finna í hvaða deild henni langi að starfa en sé ekki búin að ákveða það.

„Maður er bara að reyna að finna sig í öllu og svo ákveður maður sig í framtíðinni hvað maður vill gera.“

„Mér líður mjög vel í lögreglunni á Vesturlandi,“ segir Eva María og segist hún vilja vera þar áfram ef kostur er á, „en maður veit aldrei hvað verður í framtíðinni.

Á seinustu önninni velur maður sér stöð til að starfa við. Ég ætla að velja að vera hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Eva María Jónsdóttir, nemi í lögreglufræðum en fram að því verður hún við störf hjá lögreglunni á Vesturlandi eins og Kristófer Daði skólabróðir hennar en Maren Eir verður áfram við störf í Reykjavík.

Ef allt gengur að óskum útskrifast þau úr lögreglufræði vorið 2026.

Eva María, Kristófer Daði og Maren Eir.
Eva María, Kristófer Daði og Maren Eir. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka