„Krakkarnir mættu með mikla einlægni og hráleika og það var mikill heiður að vinna með þeim. Hæfileikarnir krauma í þeim og það komu augnablik þar sem ég hreinlega grét,“ segir Steinunn Camilla Sigurðardóttir tónlistarkona sem heldur utan um tónlistarnámskeiðin í Kúnstpásu, verkefni sem hefur það hlutverk að tengja geðendurhæfingu við skapandi greinar.
Steinunn kveðst hafa undirbúið sig vel. „Maður gerir ekki svona lagað nema að vel ígrunduðu máli og ég var því klár með excel-skjöl og hvaðeina. Við værum að fara að gera þetta og gera hitt. Síðan hitti ég krakkana og allt planið fauk bara út um gluggann; við byrjuðum bara að skapa. Auðmýktin var það eina sem þurfti. Við unnum þetta alfarið á jafningjagrundvelli og ég held að ég hafi lært alveg jafn mikið og þau.“
Fjöldi tónlistarmanna lagði henni lið á námskeiðinu, svo sem Una Torfa, Halldór Gunnar Pálsson og Einar Bárðarson. „Allir sem ég talaði við voru boðnir og búnir að vera með. Það hefur aldrei verið auðveldara að fá fólk til að mæta.“
Vinnuaðstaðan var í hljóðverinu Tónhyl í Árbænum sem Steinunn segir að sé frábært rými. „Það var líka mjög gaman fyrir krakkana að vita af Herra Hnetusmjöri, Margréti Rán úr Vök og Gusgus eða Jóni Jónssyni í næsta herbergi. Einu sinni þurfti meira að segja að lækka í Helga Björns, sem var að æfa fyrir tónleika. Það heyrðist svo hátt í honum,“ segir Steinunn hlæjandi.
Við erum að tala um sköpunarferli allt frá hjartanu að útgáfu en þátttakendur, átta að tölu, fengu að hljóðrita sitt efni. „Flest eru þau komin með lög sem þau gætu gefið út. Þau eru fullfær um það,“ segir Steinunn.
– Þú hvetur þau væntanlega til að halda áfram á sömu braut?
„Já, Guð minn góður. Afdráttarlaust.“
Ítarlega er fjallað um Kúnstpásu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.