Frosti er spáð um mest allt land í dag. Í kvöld hlýnar í veðri.
„Dagurinn í dag byrjar rólega. Breytileg átt og bjart með köflum, en dálítil él norðan- og austantil. Frost um mest allt land. Gengur í austan og suðaustan 13-20 með snjókomu eða slyddu eftir hádegi og síðar rigningu. Þurrt framan af norðanlands, en snjókoma með köflum þar undir kvöld. Hlýnandi veður, hiti 1 til 7 í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Á morgun er spáð suðvestan hvassviðri eða stormi með skúrum eða slydduéljum, en gera má ráð fyrir að dragi úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Seinnipartinn er hins vegar spáð austlægri átt með rigningu eða slyddu. Hiti verður á bilinu 1 til 8 stig, svalast verður á Vestfjörðum.
Á þriðjudag verður suðvestan 8-15 m/s. Gera má ráð fyrir skúrum víða um land. Þá styttir upp og kólnar um kvöldið, en líkur eru á dálítilli vætu suðaustanlands.