Gera má ráð fyrir snörpum hviðum, allt að 40 m/s undir Hafnarfjalli og á utanverðu Kjalarnesi um og upp úr kl. 15 í dag. Hvöss suðaustanátt gengur yfir suðvestanvert landið og eru gular veðurviðvaranir í gildi.
Að sögn starfsmanns Vegagerðarinnar ætti veðrið að ganga hratt yfir og það versta að standa stutt yfir.
Bílar sem taka á sig mikinn vind ættu ekki að vera á ferðinni í svona miklum vindhviðum, það á við bíla með aftanívagna, húsbíla, rútur og slíkar bifreiðar.
„Það getur líka verið hættulegt að fara á venjulegum bíl en þeir sem eiga nauðsynlega leið þarna hjá verða bara að fara rólega og varlega,“ segir starfsmaður Vegagerðarinnar.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir fyrir sunnan- og vestanvertlandið frá kl. 14:00 í dag. Vegfarendur eru beðnir að kanna aðstæður áður en lagt er af stað.