Góð reynsla þykir hafa fengist af starfsemi heimaspítala sem síðustu misseri hefur verið starfræktur við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi. Þetta er ein af nýjungum hjá stofnuninni sem þróaðar hafa verið í starfi sem Guðný Stella Guðnadóttir yfirlæknir hefur haft frumkvæði að.
„Við erum með góðan bíl sem hentar sveitafærð. Búnaðurinn er í stórri tösku sem er eins og lítil bráðamóttaka í bakpoka. Við getum tekið blóðprufur sem við greinum á staðnum að mestu leyti,“ segir Guðný Stella sem starfaði um árabil í Svíþjóð. Þaðan kemur hugmyndin að þeirri starfsemi sem hér er til umfjöllunar.
Fólkið sem heimaspítalanum er ætlað að sinna er í fyrsta lagi fólk sem er fjölveikt, aldrað eða hrumt nema tvennt eða þetta allt fari saman. Í annan stað getur þetta verið fólk með alvarlega lífsógnandi sjúkdóma svo áherslur í meðferð eru líknandi. Hugsunin með þessu öllu er að tryggja sjálfstæða búsetu og að draga úr komum á bráðamóttöku eða að viðkomandi þurfi að leggjast inn á sjúkrahús. Sem sakir standa miðast þessi þjónusta HSu við Árborg, það er Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri, en verður færð út þegar mönnun og aðstæður leyfa. Vel er fylgst með hvernig til tekst, samanber að heilbrigðisráðuneytið hefur styrkt þetta verkefni sérstaklega.
„Reynsla mín er að hægt sé að veita mjög góða heilbrigðisþjónusu í heimahúsum, jafnvel á við sjúkrahúsþjónustu. Þetta eru sjúklingar með flóknar þarfir sem oft líður illa inni á sjúkrahúsum og jafnvel farnast ekki vel þar. Þess vegna vildi ég opna heimaspítala hér á landi og sú hugmynd fékk strax góðar undirtektir þegar ég kom til starfa hér á Selfossi árið 2022, þá nýflutt frá Svíþjóð,” segir Guðný Stella.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.