Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk fyrir hádegi í morgun tilkynningu um að maður væri að elta annan mann með hníf, og var sá með hnífinn handtekinn, að kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Fram kemur að mikið virðist hafa gengið á, en hinn handtekni verður kærður fyrir akstur undir áhrifum, sölu fíkniefna og vopnaburð á almannafæri, svo eitthvað sé nefnt.
Þá var manni vísað út af bráðamóttökunni í Fossvogi vegna ógnandi hegðunar. Heimtaði hann tiltekin lyf sem ekki var hægt að afgreiða nema með aðkomu læknis og lyfseðils.
Tveimur einstaklingum til viðbótar var svo vísað út af Landspítalanum þar sem þeir voru þar í óleyfi og óvelkomnir.
Þá er tekið fram í tilkynningu lögreglu að nokkrum veðurtengdum málum hafi verið sinnt í eftirmiðdaginn. Eitthvað var að fjúka á byggingarsvæði, einnig skilti og fleira slíkt.