Eistar hafa staðið framarlega þegar kemur að menntun ungmenna og eistnesk ungmenni stöðugt skarað fram úr í PISA-könnunum undanfarinna ára.
Eistar voru efstir meðal ríkja OECD í lesskilningi og vísindum og númer þrjú í stærðfræði árið 2018.
Fjórum árum síðar voru þeir efstir meðal Evrópuríkja í bæði lestri, vísindum og stærðfræði. Árið 2022 jafnaðist stærðfræðiárangur Eista á við árangur þeirra allra bestu í heiminum, Japans og Suður-Kóreu.
Kristina Kallas, menntamálaráðherra Eistlands, var hér á landi í liðinni viku í tengslum við alþjóðlegan leiðtogafund um málefni kennara, ISTP.
Blaðamaður settist niður með henni í Hörpu og umræðuefnið var að sjálfsögðu árangur Eista í PISA-könnununum, sem mikið hafa verið í umræðunni vegna stórversnandi árangurs íslenskra barna í alþjóðlegum samanburði.
Kallas segir enga eina töfralausn til svo að niðurstöður úr PISA-könnunum verði betri.
„Aðferðafræðileg nálgun þarf að vera á metnaðarfulla námskrá og afburðaframmistöðu nemenda í námi. Hugarfar þeirra þarf að vera að setja markið hátt og það er okkar að stimpla það hugarfar inn,“ segir hún.
„Við þurfum að segja: „Þetta er ráin. Þetta er sá árangur sem þið verðið að ná. Til að komast á þann stað þarftu að leggja hart að þér.“ Allir geta komist á þann stað.“
Þannig segir Kallas að nemendur þurfi að temja sér ákveðið vaxtarhugarfar og að þeir þurfi að trúa því að allir geti náð t.d. þessum ákveðna árangri sem ætlast er til í stærðfræði, það hafi ekkert að gera með erfðir eða annað, það geti allir komist á þann stað.
„Í mínum huga er eina mikilvægustu vísbendinguna í PISA-niðurstöðunum að finna í þessu vaxtarhugarfari. Þetta hugarfar um að allir geti það, allir hafi þessa getu. Eistland er á toppnum hvað það varðar.“
75% eistneskra nemenda trúa því því að stærðfræði sé eitthvað sem allir geta tileinkað sér.
„Þetta vaxtarhugarfar held ég að sé mjög mikilvægt. Kennarar rækta þetta hugarfar. Þeir trúa því að allir í bekknum séu færir um að komast á besta stað.“
Sjálfræði menntakerfisins skiptir öllu máli að mati Kallas, sem segir það auðvitað ekki vera nýja hugmynd á Íslandi.
„Ég meina, ef ég horfi á íslenska menntakerfið þá erum við með nákvæmlega sama kerfið. Sama kerfi leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og verknáms. Nákvæmlega sama kerfið.
Sveitarfélög reka leik- og grunnskóla en ríkið rekur framhaldsskólann. Svo nákvæmlega sama kerfið. Í mörgum ríkjum er sjálfræði og ákvörðunarvald kennara ekki til staðar.
Það er til staðar á Íslandi og Ísland hefur alla möguleika á að gera betur.“
Talið berst aftur að hugarfari. Kallas segir að hugarfar menntunar eigi að vera að menntun sé vinna – erfið vinna.
„Þetta er ekki bara þægilegt ferli sem þú ferð í gegnum. Þetta er átak. Þetta er samstillt átak sem allir þurfa að gera.“
Kallas segir að í Eistlandi sé litið upp til nemenda sem standi sig vel í námi. Samnemendur líti upp til þeirra og í raun samfélagið í heild.
„Krakkar eru stoltir af því að gera vel. Nemendur virða kennarana almennt og bera virðingu fyrir náminu.“