Þrumur og eldingar við Reykjanesskaga

Þrumuveður hefur gert vart við sig reglulega að undanförnu hér …
Þrumuveður hefur gert vart við sig reglulega að undanförnu hér á landi. Mynd þessi er úr safni, tekin í Bláskógabyggð. Ljósmynd/Ævar Eyfjörð Sigurðsson

Þrumuveður gengur nú yfir og í kringum Reykjanesskaga en hátt í 30 eldingar hafa mælst frá því rétt fyrir klukkan hálffjögur í dag með tilheyrandi þrumum.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að niðursláttur eldinga hafi mælst suður og suðvestur af Reykjanesskaga.

„Það er talsvert af eldingum núna og þetta gæti staðið eitthvað fram á kvöld og svo dregur úr þessu,“ segir Þorsteinn en þrumuveðrið fylgir skilum sem voru að fara yfir suðvestanvert landið.

„Það kom óstöðugt loft í kjölfarið og því fylgdu þrumur og eldingar.“

Heyra má á þessu stutta myndskeiði sem tekið er upp á völlunum í Hafnarfirði hversu mikil orka fylgir þrumunum.

Suðvestanstormur

Djúp og kröpp lægð kemur nú upp að landinu og færist yfir vesturhluta landsins í kvöld og nótt að sögn Þorsteins. Lægðin verður þá komin yfir Vestfirðina í nótt og þá snýst í allhvassa eða hvassa suðvestanátt og jafnvel má búast við stormi sums staðar.

Gular viðvaranir taka gildi í nótt fyrir Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og Norðurland eystra. Þær verða í gildi fram yfir hádegi á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka