Urðu mjög ókyrrir og jafnvel æstir

Ólafur Thors í ræðustól.
Ólafur Thors í ræðustól. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Ólafur Thors forsætisráðherra flutti undir lok marsmánaðar 1955 framsöguræðu í neðri deild Alþingis fyrir frumvarpi um að veita Kópavogi kaupstaðarréttindi. Forsætisráðherra lagði áherslu á það í ræðu sinni að Kópavogshreppur væri nú orðinn svo stór, að óhugsandi væri annað en að breyta um stjórnarhætti þar, ef vel ætti að fara. Og hann benti á að fyrir lægi áskorun til Alþingis frá meirihluta kjósenda í hreppnum um að veita honum kaupstaðarréttindi.

Sjálfsagt mál og óumdeilt, hugsið þið ábyggilega með ykkur. En, nei. Kommúnistar á þingi urðu nefnilega, að sögn Morgunblaðsins, mjög ókyrrir og jafnvel æstir, þegar mál þetta kom til umræðu. „Sýndu þeir málinu fulla andstöðu og vildu draga þetta allt á langinn, án þess að færa nokkur önnur rök fyrir því en að oddviti þeirra í Kópavogi hefur látið hjá líða að semja kjörskrá fyrir hreppinn á réttum tíma eins og landslög þó bjóða honum,“ stóð í frétt blaðsins.

Kommúnistar þessir voru að sjálfsögðu þingmenn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins.

Ólafur Thors rakti í framsöguræðu sinni helstu rökin sem hnigu til þess að veita Kópavogi kaupstaðarréttindi. Hann benti á, hve það væri sérstætt í þessu máli að hreppsnefndin hefði ekki sótt um kaupstaðarréttindi, heldur hefði hafist hreyfing um það meðal almennings, sem fyndi glöggt til þess hve áfátt væri stjórn hreppsfélagsins. En meirihluti hreppsnefndar spyrnti stöðugt við broddum og reyndi að stöðva hina eðlilegu þróun.

Löng æsingaræða

„Það hefur verið venja,“ sagði Ólafur, „að löggjafinn veiti þeim hreppum kaupstaðarréttindi sem stækka ört. Nú er það einsdæmi að nokkur hreppur taki jafn örum vexti og Kópavogshreppur, og er því ekki nema eðlilegt að verða við beiðni meirihluta íbúanna þar. En fyrir nokkru barst Alþingi áskorun frá 760 kosningabærum íbúum Kópavogshrepps, þar sem þess er óskað að hreppnum verði veitt kaupstaðarréttindi.“

Lúðvík Jósepsson
Lúðvík Jósepsson

Lúðvík Jósepsson, þingmaður Sósíalistaflokksins, tók nú til máls og hélt langa æsingaræðu, að sögn Morgunblaðsins. Aðalefni hans ræðu var að véfengja undirskriftirnar undir áskorunarskjalið. Sagði hann að af þeim 760 sem undirskrifuðu væru 224, sem ekki fyndust á kjörskrá. Fór hann hinum háðulegustu orðum um undirskriftasöfnunina.

Nánar er fjallað um málið í Tímavélinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka