Þrjár erlendar konur voru á ferð á hringveginum undir Eyjafjöllum í dag þegar grjót hrundi á bíl þeirra. Ökumaðurinn er látinn.
Stórt grjót lenti á bifreiðinni sem ekið var í austurátt.
Farþegarnir sluppu með minniháttar áverka og voru konurnar fluttar til frekari skoðunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi, en tilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 12.42 í dag.
Ökumaðurinn var fastur inni í bifreiðinni þegar viðbragðsaðilar komu og var úrskurðaður látinn á vettvangi. Rannsókn slyssins er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Suðurlandsvegi var lokað vegna slyssins en var opnaður á ný seinnipartinn.
Fréttin hefur verið uppfærð.