„Ég vil að þú deilir alltaf staðsetningunni þinni með mér“

Það er eldrautt flagg, að mati tónlistarkonunnar Katrínar Myrru, ef …
Það er eldrautt flagg, að mati tónlistarkonunnar Katrínar Myrru, ef einhver vill alltaf geta séð staðsetningu maka síns. Skjáskot/Stigamót

Er það rautt flagg að maður vilji ekki að maki sinn klæðist flegnum eða þröngum fötum? Að manni finnist kynlífið búið um leið og einn fær fullnægingu? Eða að maður krefjist þess að makinn sinn sé ávallt með farða svo ekki sjáist í bólur?

Sjúkást-herferð á vegum Stígamóta skoðar heilbrigð og óheilbrigð sambönd í gegnum umræðuspilið Sjúk flögg. Spilið inniheldur yfir 190 fullyrðingar sem ýmist eru rautt flagg, grænt flagg, bæði eða hvorugt.

Er rautt flagg að fylgjast með staðsetningunni þinni? Er rautt flagg að ég vilji ekki að þú farir á djammið án mín? Er grænt flagg að ég viti hvað þú vilt í bragðaref?

Fullyrðingarnar eru byggðar á gögnum Sjúktspjall, sem er nafnlaust netspjall fyrir ungt fólk, og reynslu ráðgjafa Stígamóta.

Vonin er að spilið fái fólk til að velta fyrir sér eigin hegðun, hegðun annarra og heilbrigðum viðmiðum í samskiptum, mörkum og samböndum.

Ráðgjöf fagaðila um sambönd, samskipti og ofbeldi

Sjúk ást er fræðslu- og forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi á vegum Stígamóta. Markmið verkefnisins er að fræða ungmenni um mörk, samþykki og heilbrigð sambönd með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi áður en það er framið.

Sjúktspjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni 25 ára og yngri þar sem þau geta leitað ráðgjafar fagaðila um sambönd, samskipti og ofbeldi.

Spjallið opnaði í mars 2022, en árið 2024 höfðu yfir 230 spjöll átt sér stað. Helstu þemu spjallanna voru kynferðisofbeldi, meðvirkni og óöryggi og óheilbrigð sambönd.

Sjúktspjall er opið frá kl. 20-22 á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum og má finna á síðunni sjukast.is/sjuktspjall/.

Samsett mynd/Aðsend

Hafa rætt opinskátt um mörk og samskipti

Eins og tíðkast hefur undanfarin ár hafa Stígamót dreift veggspjöldum og fræðsluefni til félagsmiðstöðva og framhaldsskóla. Að þessu sinni var spilið Sjúk flögg einnig sent og hefur það fengið mjög góðar undirtektir. Ungt fólk hefur rætt opinskátt um mörk og samskipti, en spilið er mjög góð kveikja fyrir slíkar umræður.

Spilið, veggspjöld Sjúkást 2025 og fræðsluefni má finna á sjukast.is.

Myndbönd verða birt á samfélagsmiðlum Sjúkást þar sem þau Ólafur Jóhann, Sigurlaug Birna, Katrín Myrra, Dj Gugga, Tommispoons, Alexander Óli, May Sigurjóns, Erika Nótt og Guðjón Smári spila Sjúk flögg og ræða sambönd og samskipti.

Stígamót hvetur alla til að fylgjast með samfélagsmiðlum Sjúkást, kíkja inn á sjukast.is og næla sér í spilið Sjúk flögg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert