„Það er dásamlegt að fá hann aftur,“ segir Þröstur Jónasson, eigandi kattarins Gómez, sem fannst í dag í Þorlákshöfn eftir að hafa verið týndur í tíu daga.
Í morgun var greint frá því að fjórir heimiliskettir hefðu horfið á Kársnesi í mars, og grunur leikur á að þeim hafi verið rænt og komið fyrir annars staðar.
Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Þröst í morgun, var hann ásamt eiginkonu sinni á leið til Þorlákshafnar eftir að hafa fengið ábendingu um að Gómez hefði sést þar, um 50 kílómetrum frá heimili sínu.
Þröstur lýsir því hvernig Gómez hafi komið hlaupandi í átt að þeim hjónum þegar þau gengu um Þorlákshöfn og segir þá stund hafa verið dásamlega. Hins vegar var Gómez ekki alltof ánægður með bílferðina heim en er nú að koma sér fyrir á heimilinu eftir tíu daga fjarveru.
„Hann er búinn að léttast og er rytjulegur, greinilega bara búinn að vera úti,“ segir Þröstur þegar hann er spurður um ástand kattarins.
Hann bendir á að hinir þrír kettirnir, Tígull, Matthildur og Góa, séu enn ófundnir og að leitinni að þeim verði haldið áfram af fullum krafti.
„En það er frábært að hér sé til fullt af fólki sem nennir að hafa augun opin og fylgjast með. Það er gott að vita að fólk hugsar vel um dýrin,“ segir Þröstur að lokum.