Átta þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp sem myndi m.a. gera fólki kleift að taka upp nýtt kenninafn án þess að eiga eiginlegt eða huglægt tilkall til einhvers sérstaks ættarnafns.
Þannig mætti taka upp glænýtt eftirnafn, sem gæti síðan orðið ættarnafn. Þá mætti einnig kenna sig við sérstakan stað á landinu eins og hefð hefur verið fyrir, svo sem Reykfjörð eða Laxness. Það væri aftur á móti ekki heimilt að taka upp kenninafn sem þegar er til að tilefnislausu.
Flutningsmaður frumvarpsins er Jón Gnarr, áður Jón Gnarr Kristinsson og reyndar Jón Gunnar Kristinsson á undan því. Hann fékk árið 2015 að taka upp Gnarr að eftirnafni eftir langa baráttu við mannanafnanefnd er lauk þegar nefndin gaf undan eftir að dómstóll í Bandaríkjunum samþykkti nafnabreytinguna, en þar hafði Jón verið búsettur.
„Það skýtur óneitanlega skökku við að á meðan ný íslensk ættarnöfn eru bönnuð eru nú sum algengustu ættarnöfn á landinu af erlendum stofni og fer þeim hratt fjölgandi í samræmi við fjölda innflytjenda sem flytjast hingað annars staðar frá. Það ættarnafn sem flestir einstaklingar bera á Íslandi er víetnamskt,“ segir í frumvarpinu en nýlega var greint frá því að Nguyen væri algengasta eftirnafnið á Íslandi. „Þessi skekkja verður ekki löguð með öðrum hætti en með þeirri lagabreytingu sem hér er mælt fyrir.“
Frumvarpið leyfir mannanafnanefnd einnig í ákveðnum tilfellum að víkja frá reglum um að nöfn verði að geta tekið íslenska eignarfallsendingu og megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu