Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kunni ekki að meta „tón“ Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi í dag er hún ýjaði að því að forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu þvingað Ásthildi Lóu Þórsdóttur til að segja af sér ráðherradómi.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þinginu í dag sagði Sigríður að eftir stæði spurningin hvers vegna Ásthildur sagði af sér sem mennta- og barnamálaráðherra.
„Á fjögurra tíma fundi sem þeir áttu saman, forystumenn ríkisstjórnarinnar og ráðherrann sem sagði af sér, hvað gerði hæstvirtur forsætisráðherra til að styðja ráðherrann á þeim tíma til að takast á við yfirvofandi umfjöllun?“ spurði Sigríður.
Kristrún sagði að í lok dags þá hafi ákvörðunin um afsögn verið Ásthildar og það sé eðlilegt að beina fyrirspurnum um afsögnina til hennar.
Aftur á móti hafi ekkert verið venjulegt við það hvernig Ásthildur hafi háttað sér gagnvart uppljóstraranum í málinu.
„Ég hef hins vegar líka sagt og mér er það að meinalausu að segja það hér aftur að það var ekkert eðlilegt við viðbrögð þáverandi ráðherra á sínum tíma þegar hún ákveður að vera í sambandi við umræddan aðila sem allir hafa nú fengið veður af hver er, heyrði í henni í síma, birtist heima hjá henni og þetta veit hún, hún gerir sér fullkomlega grein fyrir því. Og algerlega óháð því hvað gerist hér fyrir rúmlega 35 árum síðan þá er sú hegðun auðvitað athugaverð sem birtist í kjölfarið. Ég hef sagt það áður og mér finnst ekkert óeðlilegt við að hún hafi séð að sér í þeirri aðstöðu,“ sagði Kristrún.
Sigríður sagði að það lægi fyrir að ríkisstjórnin hefði fengið hótun utan úr bæ og verið settir afarkostir, um að ráðherra viki.
Sigríður spurði hvernig það gæti verið að slíkar hótanir leiddu til þess að ríkisstjórnin ræddi málið klukkutímum saman með þeirri niðurstöðu að ráðherrann segði af sér.
„Og í þessu ljósi fannst hæstvirtum forsætisráðherra það einboðið að þáverandi ráðherra hlypi eftir slíku. Það er pólitískt mat og varðar forsætisráðherra en ekki þennan ráðherra. Á þingið og þjóðin að sitja undir því að ríkisstjórnin láti undan hótunum utan úr bæ og fyrirskipunum um hverjir skipi ráðherraembætti? Því þarf hæstvirtur forsætisráðherra að svara,“ sagði Sigríður.
Kristrún Frostadóttir mætti þá upp í ræðupúlt Alþingis og skaut á Sigríði.
„Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki alveg að meta þann tón sem er settur hérna fram. Það hafa hvergi komið fram merki um það að einhver hafi verið tilneyddur til að segja af sér. Hér er verið að saka fólk um frekar alvarlega þætti,“ sagði Kristrún.
Hún kvaðst ekki hafa sagt að Ásthildur hafi sagt af sér vegna hegðunar hennar gagnvart uppljóstraranum heldur einfaldlega bent á það að það hafi verið til umræðu þegar Ásthildur hafi verið að meta sína stöðu.
„Ég verð að segja alveg eins og er að ég kann ekki að meta að því sé stillt upp með þeim hætti að það sé snúið upp á handlegginn á einhverjum til að segja af sér. Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan: Þetta er ákvörðun þáverandi ráðherra í þágu sinna málaflokka að stíga til hliðar,“ sagði Kristrún.
Sigríður Andersen var með frammíköll og sagði Kristrúnu að svara spurningunni.
„Ég er að svara spurningunni, háttvirtur þingmaður, og segja að ég kann ekki að meta þennan málflutning því það er einfaldlega ekkert til í honum eins og ég hef ítrekað svarað,“ sagði Kristrún.