Landsmenn hvattir til að búa sig undir neyðarástand

Úr auglýsingaherferð Rauða krossins þar sem farið er yfir það …
Úr auglýsingaherferð Rauða krossins þar sem farið er yfir það sem gott sé að hafa í viðlagakassanum. Ljósmynd/Rauði krossinn

Rauði krossinn á Íslandi hefur hrint af stað átakinu 3dagar.is til að hvetja landsmenn til að vera undirbúnir ef neyðarástand skapast.

Neyðarástand getur skapast af ýmsum ástæðum og oft með stuttum eða engum fyrirvara, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum

Mikilvægt að fólk geti bjargað sér án hjálpar

„Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hvert og eitt okkar geti bjargað sér í einhverja daga án utanaðkomandi hjálpar,“ er haft eftir Aðalheiði Jónsdóttur, teymisstjóra neyðarvarna hjá Rauða krossinum.

Bent er á að markmiðið með þriggja daga verkefninu sé að landsmenn búi sig undir að vera án rafmagns og vatns í að minnsta kosti þrjá daga og verði sömuleiðis viðbúnir því að vera án net- og símasambands.

Vera með áætlun og viðlagakassa tilbúinn

Þá segir að öll heimili eigi að vera með heimilisáætlun og viðlagakassa tilbúinn. Viðlagakassinn sé hugsaður fyrir helstu nauðsynjar sem fólk þurfi til að komast af á heimili sínu í að minnsta kosti þrjá daga verði til dæmis bæði vatns- og rafmagnslaust.

Eftirtalda hluti er gott að setja í kassann:

  • Útvarp
  • Rafhlöður
  • Kerti
  • Eldspýtur/kveikjara
  • Prímus eða gasgrill
  • Vasaljós
  • Viðgerðarlímband
  • Fjölnota verkfæri
  • Lista yfir mikilvæg símanúmer
  • Skyndihjálpartösku

Fólk hvatt til að útbúa kassann strax

„Þá þarf matur og vatn fyrir alla fjölskylduna til þriggja daga að vera tiltækt á heimilinu. Ekki gleyma gæludýrunum. Það er aldrei að vita hvenær þörf á að grípa til viðlagakassans skapast og því hvetur Rauði krossinn landsmenn til að útbúa hann strax,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Nánari upplýsingar hér. 

Hér fyrir neðan má sjá horfa á fleiri auglýsingar frá Rauða krossinum sem tengjast ofangreindum viðbúnaði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert