Guðlaugur Þór Þórðarson fyrrverandi utanríkisráðherra segir áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi ekki koma á óvart, enda hafi legið lengi fyrir að vægi norðurslóða myndi aukast mikið og þá sérstaklega Grænlands.
„Þótt það séu svo sannarlega ógnir, sérstaklega í öryggismálum, þá eru líka tækifæri sem menn sjá fyrir sér á norðurslóðum,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Morgunblaðið. Hann bendir á að þótt orðræða Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um Grænland undanfarið hafi í besta falli verið óheppileg sé Trump ekki hefðbundinn stjórnmálamaður. Það sé því ekki alltaf hægt að leggja það sem hann segi að jöfnu við þá orðræðu sem fólk er vant í stjórnmálum almennt.
„En það liggur auðvitað fyrir að það var áherslumál hjá okkur í minni tíð sem utanríkisráðherra að leggja áherslu á norðurslóðarmál, enda mátti öllum vera það ljóst að vægi þeirra er búið að aukast gríðarlega mikið og mun halda áfram að aukast. Þannig að sá þáttur kemur ekki á óvart,“ segir Guðlaugur Þór.
Spurður hvort hann telji líklegt að Bandaríkin nái einhvers konar yfirráðum á Grænlandi bendir Guðlaugur aftur á hvað Trump sé óhefðbundinn stjórnmálamaður og því sé ekki hægt að átta sig nákvæmlega á því hvað hann eigi við með yfirráðum.
Guðlaugur segir að áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi sé ekki nýr af nálinni og bendir á að Harry Truman Bandaríkjaforseti hafi spurst fyrir um það hjá dönskum stjórnvöldum eftir síðari heimsstyrjöld hvort það væri í boði að Bandaríkin fengju yfirráð yfir Grænlandi. Guðlaugur segir orðræðu J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna vera svipaða og hjá Trump, og að hinn fyrrnefndi hafi virst virða sjálfsákvörðunarrétt Grænlendinga í ræðu sem hann flutti í Pituffik-geimherstöð Bandaríkjamanna á föstudaginn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu