Segir Ingu vega að starfsheiðri sínum

Ársæll Guðmundsson ræddi við mbl.is um ummæli Ingu.
Ársæll Guðmundsson ræddi við mbl.is um ummæli Ingu. mbl.is/Sigurður Bogi

Ársæll Guðmundsson, skólastjóri Borgarholtsskóla, segir mjög ósmekklegt hvernig Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafi vegið að hans starfsheiðri með því að spyrja opinberlega hvort hann hafi gerst sekur um trúnaðarbrest.

Inga, sem er ráðherra félags- og húsnæðismála, hefur sagt að hún hafi ekki ýjað að ítökum innan lögreglunnar í símtali sínu við Ársæl.

Ársæll segir aftur á móti að Inga verði að bera ábyrgð á sínum orðum, en að hann ætli ekki að tjá sig um efnistök símtalsins.

Þetta kemur fram í samtali Ársæls við mbl.is um nýjustu ummæli Ingu.

„Mér þótti mjög miður að sjá ráðherra vega að mínum starfsheiðri. Mér fannst það ómaklegt,“ segir Ársæll í samtali við mbl.is.

Ekki tjáð sig um símtalið opinberlega

Í samtali við Samstöðina spurði Inga hvort Ársæll hefði brotið trúnað í tengslum við samtal hennar við Ársæl.

„Ég hef ekkert tjáð mig um þetta símtal eða þetta mál og hef kosið að gera það ekki. Ég hef heldur ekki tjáð mig um nemendur skólans og mér þykir það mjög leitt að lesa það eftir ráðherra að það sé verið að vega að mínum starfsheiðri. Það finnst mér ósmekklegt,” segir Ársæll.

Samkvæmt heimildum mbl.is ræddi skólameistarinn um símtalið sem hann átti við Ingu við starfsmenn en Ársæll hefur sjálfur aldrei tjáð sig um símtalið opinberlega.

Á Inga að hafa bent skólameistaranum á stöðu hennar í samfélaginu og ítök sín í lögreglunni vegna týnds skópars barnabarns hennar.

Ársæll ítrekar í samtali við mbl.is að hann ætli ekki að tjá sig opinberlega um efnistök símtalsins.

Inga Sæland á að hafa minnst á ítök innan lögreglunnar. …
Inga Sæland á að hafa minnst á ítök innan lögreglunnar. Hún hafnar því en Ársæll segir að Inga þurfi að bera ábyrgð á orðum sínum. mbl.is/Karítas

Ræddi við starfsmenn um símtalið

Inga sagði í viðtali á Samstöðinni að skólameistarinn hefði ekki átt að tjá sig um samtalið þeirra á milli.

„En hafa ein­hvern tíma fjöl­miðlar verið að skoða það hvort þessi ágæti skóla­stjóri braut trúnað gagn­vart nem­and­an­um?“ spurði Inga.

En hún virðist vera að vísa í þarna að þú átt að hafa rætt þetta símtal við starfsmenn skólans. Er það ekki rétt?

„Það er alveg ljóst, alveg sama hvort það er þetta mál eða eitthvað annað, ef ég fer af stað að biðja fólk um að gera eitt eða annað þá vita starfsmenn af öllum málum. Hvort sem það er þetta mál eða eitthvað annað. Öll mál eru rædd og tekin fyrir og reynt að afgreiða. Allir starfsmenn mínir eru bundnir þagnarskyldu og mér þykir mjög miður að einhver hafi verið að tjá sig við fjölmiðla.

Ég veit ekkert hver það er, það er ekki ég allavega. Þannig mér þykir það mjög leitt – ég er með 150 starfsmenn – að einhver hafi verið að tjá sig um málefni forráðamanna eða nemenda. Það á ekki að gera það og ég geri það ekki og starfsfólk á ekki að gera það heldur,“ segir Ársæll.

„Hún verður bara að bera ábyrgð á sínum orðum

Þó Ársæll hafi aldrei opinberlega tjáð sig um efni símtalsins þá hefur Inga haldið því fram opinberlega að hún hafi ekki ýjað að ítökum hjá lögreglu í samtali sínu við Ársæl.

„Hún verður bara að bera ábyrgð á sínum orðum,“ segir Ársæll en vill ekki svara því hvort Inga hafi nefnt lögregluna í þessu margumrædda símtali.

„Ég er búinn að vera í þessu í fjörutíu ár. Starfað fyrir hag barna og ungmenna og þetta þykir mér mjög ómaklegt að heyra,“ segir Ársæll um orðræðu Ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert