„Þessi hús verða tilbúin nú í sumar. Við hlökkum til að taka á móti gestum í þeim,“ segir Skúli Mogensen athafnamaður.
Framkvæmdir standa nú yfir við sjóböðin í Hvammsvík. Þar er verið að byggja átta ný hús sem bætast við sem gistieiningar fyrir gesti á staðnum. Fyrir eru fjögur stór hús en þessi átta hús verða smærri.
„Við erum hægt og rólega að halda áfram að þróa Hvammsvíkina. Þessi átta hús verða 40 fermetrar hvert og eru hugsuð sem tveggja manna svítur. Hvert og eitt þeirra verður einstakt, eins konar listamannastúdíó sem nefnd verða í höfuðið á listamönnum sem við höfum miklar mætur á. Þau munu öll hafa að geyma upprunaleg listaverk eftir viðkomandi listamenn,“ segir Skúli.
Nýju húsin eru skammt frá hinum húsunum er tilheyra „Hvammsvíkurkonseptinu“, eins og Skúli kallar það. Sjóböðin og þjónusta við gesti á svæðinu hafa mælst vel fyrir síðustu ár og tímabært þykir að færa út kvíarnar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu