Spyr hvort skólameistarinn hafi brotið trúnað

Fyrstu hundrað dagarnir hafa verið viðburðaríkir hjá nýrri ríkisstjórn.
Fyrstu hundrað dagarnir hafa verið viðburðaríkir hjá nýrri ríkisstjórn. mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, spyr hvort að skólastjóri Borgarholtsskóla hafi brotið trúnað í skómálinu svokallaða þegar hann upplýsti starfsmenn um símtal sem hann átti við Ingu vegna týnds skópars barnabarns hennar.

Inga segir barnabarnið ekki hafa mætt í skólann síðan greint var frá atvikinu í lok janúar.

Þetta kemur fram í þætti á Samstöðinni þar sem Inga er gestur.

Segir hann ekki eiga að tala um einkasamtal sem varðar nemanda

Inga byrjaði á því að rifja upp málið með því að skjóta á Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna þess að hann hefur reifað hugmyndir um að nefndin skoði málið.

„Auðvitað á hann [skólameistarinn] ekki að tala um einkasamtal sem bitnar á nemandanum, sem er eyrnamerktur eini nemandi sem á ömmu fyrir ráðherra! Ítök hjá lögreglunni hefur ítrekað verið sagt. Hvurslags bull er þetta? Hverjum dettur þetta í hug? Hverju átti ég að hóta honum út af einhverjum skóm, sextán árum eða ævilangt? Hvað átti ég að gera? Hvað var þetta eiginlega?” sagði Inga.

Eins og fjallað var um í lok janúar þá hafði Inga samband við Ársæl Guðmunds­son, skólameistara Borgarholtsskóla, vegna týnds skópars hjá barnabarni hennar.

Skólameistarinn hefur ekki viljað tjá sig um efnistök símtalsins en heimildir mbl.is herma að hann hafi rætt um símtalið við starfsmenn.

„Má ég ekki vera amma?

Sigurjón Magnús Egilsson spurði Ingu hvort hún hefði átt að hringja og þá svaraði Inga:

„Má ég ekki vera amma? Má ég ekki hjálpa drengnum, má ég ekki gera það? En ég skal alveg viðurkenna það að ég verð að af-Ingu mig svolítið og ég geri mér grein fyrir því. Það er ákveðin hvatvísi sem ég verð að stilla mig um. En hafa einhvern tíma fjölmiðlar verið að skoða það hvort þessi ágæti skólastjóri braut trúnað gagnvart nemandanum?” spurði Inga.

Samkvæmt heimildum mbl.is sagði skólameistarinn starfsmönnum að Inga hefði bent honum á stöðu sína í sam­fé­lag­inu sem ráðherra og þá sér­stak­lega bent á ítök sín inn­an lög­regl­unn­ar.

Viðurkennir sjálf að símtalið var mistök

Inga sagði í samtali við mbl.is 28. janúar að hún hefði ekki ýjað að neinu er varðar lögregluna. Aftur á móti sá hún að sér með símtalið.

„Þetta voru mis­tök, ég átti að telja upp á 86 áður en amm­an tók upp sím­ann,“ sagði Inga við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert