Stuðkarlar stilla strengina fyrir mót

Glatt er jafnan á hjalla hjá KR-Valsbandinu, sem ætlar að …
Glatt er jafnan á hjalla hjá KR-Valsbandinu, sem ætlar að hita upp fyrir Íslandsmótið í Valsheimilinu. Frá vinstri: Sveinn Kr. Guðjónsson, Guðjón Hilmarsson, Garðar Guðmundsson, Sigursteinn Hákonarson, Ólafur Már Sigurðsson, Sævar Árnason, Hörður Hilmarsson, Karl Hermannsson og Stefán Eggertsson. Fremstur er svo Óttar Felix Hauksson. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Valsmaðurinn Halldór Einarsson í Henson er ótrúlega frjór og nýjasta hugmynd hans er að blása til endurfunda í Valsheimilinu fimmtudaginn 3. apríl í tilefni þess að Melavöllurinn, sem var sunnan Hringbrautar og gegnt Þjóðminjasafninu, var tekinn í notkun fyrir um 99 árum.

„Hittingurinn verður á léttu nótunum og bara til gamans gerður, og félagar mínir í hinum ýmsu knattspyrnufélögum hafa tekið vel í þetta,“ segir Halldór.

Melavöllurinn var ekki aðeins íþróttavöllur heldur jafnframt einn helsti samkomustaður bæjarins í áratugi. Þar fór fólk á skauta og spilaði íshokkí á veturna og svæðið var miðstöð knattspyrnu, frjálsíþrótta, handknattleiks, tennis og fimleika á sumrin. Fyrsti landsleikur Íslands í knattspyrnu fór fram á vellinum 1946 og Reykjavíkurfélögin æfðu þar um árabil, en völlurinn varð að víkja fyrir Þjóðarbókhlöðunni og var endanlega lokað fyrir 40 árum.

Samkoman verður klukkan 17.00-19.30 og er fyrst og fremst hugsuð fyrir leikmenn, stjórnarmenn og áhugamenn allra félaganna sem leikið hafa í efstu deild. Einkum er horft til áranna 1966-1982 í því sambandi með tilliti til þess að síðasti leikurinn á Melavellinum fór fram 1981, en Halldór leggur áherslu á að allir séu velkomnir og aðgangur ókeypis. Hægt verði að kaupa sér drykki og pylsur með tómatsósu og sinnepi hjá Gunnari Kristjánssyni, Gunnari á Hlíðarenda, en þess má geta að á Melavellinum var bara hægt að fá sinnep á pylsurnar.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert