Stjórnarráðið hefur birt skýrslu þar sem fram kemur hvernig ríkinu gengur að fylgja eftir þeim tuttugu og fimm aðgerðum sem kynntar voru á síðasta ári og eiga að sporna gegn ofbeldi meðal barna og gegn börnum.
Í skýrslunni segir að vinna við allar aðgerðir sé hafin.
Í sumum tilfellum kemur samt sem áður aðeins fram að vinna við viðkomandi aðgerð sé einungis hafin, án þess að fram komi nánari útlistun á hvað í því felist.
Við aðgerðina sem felur í sér að styðja við meðferðarúrræði barna kemur fram að síðasta haust hafi verið lagt til að farið yrði af stað í undirbúning á vistunarúrræði vegna afplánunar sakhæfra barna og barna sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum.
Ekki kemur fram hver staðan á því verkefni sé, fyrir utan að áskoranir séu uppi er varða meðferðarúrræði vegna ýmissa atvika.
Hagnýta ungmenni í fíkniefnasölu
Ofbeldi meðal barna og ungmenna hefur breyst á síðustu árum. Þeir sérfræðingar sem mbl.is hefur rætt við segja ofbeldisbrotin bæði tíðari og grófari.
Í skýrslu ríkislögreglustjóra um ofbeldi barna frá síðasta ári kemur fram að ungmenni og ungmennahópar tengist hópum í skipulagðri brotastarfsemi. Þannig hafa brotahópar sem tengjast fíkniefnamarkaðinum hérlendis hagnýtt ungmenni í sölu fíkniefna.
Í júní á síðasta ári birti Stjórnarráðið lista af fjórtán aðgerðum sem áttu að stemma stigu við ofbeldi meðal barna og gegn börnum. Um var að ræða samstillt átak fjögurra ráðuneyta, það eru mennta- og barnamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, innviðaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.
Ætluðu að skila stöðuskýrslu í desember
Í tilkynningu kom fram að aðgerðahópur ætti að leiða saman mismunandi aðila, samstilla aðgerðir og fylgja þeim eftir. Í skýrslu kom fram að allar koma ætti öllum aðgerðum af stað fyrir lok október sama ár. Hópurinn ætti að skila fyrstu stöðuskýrslunni í desember.
Í september var svo ákveðið að fjölga aðgerðunum upp í 25 og auka fjármagnið til átaksins.
Í síðasta mánuði sendi mbl.is fyrirspurn á mennta- og barnamálaráðuneytið og óskaði eftir upplýsingum um fyrstu stöðuskýrsluna sem hefði átt að vera tilbúin í desember. Í svari ráðuneytisins kom fram að stöðuskýrslan væri væntanleg á næstu vikum. Þar sem fleiri aðgerðir hefðu verið kynntar ætti upphaflegi tímaramminn, sem var kynntur með fyrstu fjórtán aðgerðunum, ekki lengur við þar sem verkefnið væri orðið stærra.
Staða aðgerðanna
Hér fyrir neðan verða aðgerðirnar 25 listaðar ásamt stöðunni, eins og greint er frá henni í skýrslunni.
- Auka þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna. Staða: Aðgerðahópur er farinn af stað og er fullskipaður. Þverfagleg vinna er hafin og undirhópar ýmissa aðgerða hafa verið settir af stað.
- Styðja við meðferðarúrræði Barna- og Fjölskyldustofu. Staða: Við reglulegt mat á stöðu meðferðarúrræðia BOFS snemma árs 2024 kom í ljós að Stuðlar væru komnir að þolmörkum. Haustið 2024 var lagt til að farið yrði af stað í undirbúning á vistunarúrræði vegna afplánunar sakhæfra barna og vegna alvarlegustu mála barna sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum, sbr. 79. gr barnaverndarlaga, og á vistunareiningu á vegum BOFS fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda og sem þurfa gæslu allan sólarhringinn. Áskoranir eru uppi er varða meðferðarúrræði BOFS vegna ýmissa atvika sem komu upp 2024, þ.m.t. myglu í húsnæði Lækjarbakka og eldsvoðans á Stuðlum.
- Koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi. Staða: Settur var á laggirnar starfshópur til að vinna að verklagi og úrræði fyrir ósakhæf börn og aðgerð nr. 2.2.3 um endurskoðun meðferðar mála og úrræða fyrir sakhæf börn. Í hópnum sitja fulltrúar frá MRN, HRN, DMR, BOFS, SÍS, LRH, LSNE, Reykjavíkurborg og RLS með öðrum hagaðilum.
- Unnið er að því að koma á fót verkefni/teymi fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi og eru í afbrotum, verkefnið kallast Farvegurinn. BOFS áætlar að 2-3 starfsmenn haldi utan um verkefnið, þróun þess og eftirfylgni. Verkefnið mun falla undir meðferðarsviðs BOFS og tilheyra meðferðarteyminu. Austlýst verður eftir 2-3 stöðugildum til að sinnu þessu verkefni en gert er ráð fyrir að aðrir sérfræðingar teymisins komi einnig að þróun og framkvæmd Farvegsins, sem og ákveðnir ráðgjafar viðkomandi meðferðarheimilis sem ungmenni hefur verið vistað á.
- Fundað var með umboðsmanni barna til að fara yfir niðurstöður könnunar embættisins um barnvænt réttarvörslukerfi meðal lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Í janúar 2025 hækkaði ríkissaksóknari sektir vegna vopnaburðar umtaslvert. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett verklagsreglur um afskipti lögreglu af börnum og ungmennum undir 18 ára sem eru brotaþolar eða gerendur í ofbeldismálum. Einnig hafa verið settar verklagsreglur um viðbrögð við vopnaburð ungmenna í skólum og/eða æskulýðsstarfi.
- Gefið var út flæðirit um fyrstu viðbrögð við vopnaburði eða kynferðisofbeldi. Lögreglan vinnur að því að kortleggja núverandi feril mála ósakhæfra og sakhæfra barna sem fremja afbrot, allt frá fyrstu afskiptum og þar til að meðferð mála lýkur í réttarvörslukerfinu og/eða fullnustukerfinu. Verknefið er unnið í samstarfi við ákæruvaldið og umboðsmann barna. Gerður var samstarfssamningur við Unicef á Íslandi um aðstoð við stöðumat og innleiðingu Barnasáttmálans í starfi lögreglunnar. Byggt er m.a. á niðurstöðum svæðisbundinna samráðsfunda vegna afbrotavarna með lykilaðilum í hverju umdæmi fyrir sig.
- Endurskoða meðferð mála og úrræði fyrir sakhæf börn. Staða: Auk þess að funda innbyrðis hefur undirhópurinn fengið kynningu frá Youth Offending Services í Lonfon Borough of Lambeth, sem er umdæmi innan Lundúna, sem haf mikla reynslu í að starfa með börnum og unglingum sem hafa leiðst út í afbrot og ofbeldishegðun. FRam undan er áframhaldandi vinna til þess að varpa ljósi á og endurskoða meðferð mála sakhæfra barna.
- Efla samfélagslögregluna. Staða: Með fjárveitingum lagði DMR áherslu á að aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna yrðu efldar og í þeim tilgangi hefur fjárveitingu verið veitt til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, lögreglustjórans á Suðurnesjum, lögreglustjórans á Suðurlandi, Héraðssaksóknara og RLS.
- Embættunum var falið að ráðstafa því hvernig fjárveitingunum yrði skipt innbyrðis á aðgerðir og gera ráðuneytinu grein fyrir nánari ráðstöfun fjárveitinganna. Ráðuneytið beindi því til embættanna að leggja áherslu á samfélagslöggæslu og sýnilega löggæslu og eflingu viðbragðs. Þá skipti máli að hraða málsmeðferð brota ungmenna. Einnig má geta þess að í júlí 2024 var ákveðið að efla samfélagslögreglu á höfuðborgarsvæðinu um tvö stöðugildi frá september 2024, í lok september var hrint af stað aðgerðinni „sýnileg löggæsla og efling viðbragðs“ og í desember 2024 var bætt í samfélagslöggæslu þar sem markmiðið var að fylgjast með hópamyndunum og efla samstarf við Flotann og sýnilega löggæslu í verslunarmiðstöðvunum, miðborg Reykjavíkur og á öðrum jólaviðburðum.
- Haustið 2024, á tímabilinu 20. ágúst - 19. desember 2024 fóru samfélagslögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu í 88 skóla með fræðslu og ræddu við rúmlega 6200 börn, auk funda með foreldrum og opnum fundum í sveitarfélögunum. Mikil ásókn er í að fá heimsóknir frá samfélagslögreglumanna í skóla. Samfélagslögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur 17 lögreglumenn í mismunandi stöðugildum sem starfa á dag- og kvöldvöktum.
- Á dagvöktunum hefur hún verið að heimsækja grunn-, framhalds- og leikskóla ásamt því að stíga inn í t.d. ofbeldismál með skólastjórnendum og öðrum samstarfsaðilum. Á kvöldvöktum hefur hún verið að fara í félagsmiðstöðvar og fylgja eftir hópamyndunum ungmenna, þá hefur hún heimsótt samfélagshús eldri borgara og unnið í að byggja upp tengingu inn í samfélög íbúa með erlendan bakgrunn.
- Auka viðbragð og sýnilega löggæslu. Staða: Sjá svar hér að ofan.
- Auka eftirfylgni vegna brota barna og ungmenna. Staða: Sjá svar hér að ofan.
- Innleiða svæðisbundið samráð um allt land. Staða: Á árinu 2024 vann lögreglan að þróun samfélagslöggæslu og svæðisbundins samráðs með lykilsamstarfsaðilum. RLS var falið að sinna samhæfingu forvarna og fræðslu, og styðja við þróun svæðisbundins samráðs. Ríkislögreglustjóra var falið að sinna samhæfingu forvarna og fræðslu og styðja við þróun svæðisbundins samráðs. Þann 22. mars 2024 var Öruggara Norðurland vestra sett á stofn. Þann 16. apríl á sama ári var undirrituð samstarfsyfirlýsing og 22. mars 2024 komu samstarfsaðilar af öllu Vesturlandi saman og undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um Öruggara Vesturland. Örruggara Norðurland eystra var stofnað 18. október 2024 og þann 4. desember 2024 var undirrituð samstarfsyfirlýsing um börn í viðkvæmri stöðu með þeim lykilstofnunum sem koma að lífi barna í Reykjavíkurborg. Einnig hefur verið undirrituð samstarfsyfirlýsing með Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ og unnið er að því að koma á svæðisbundnu samráði við þau sveitarfélög sem út af standa.
- Efla Landsteymi Miðstöðvar mennta- og skólaþjónustu sem styður við börn, foreldra og skóla. Staða: Landsteymi tók til starfa í mars 2023 og hafa um 300 mál komið inn á borð þess frá upphafi. Frá september 2024 hafa þrír ráðgjafar starfað í 100% stöðugildum hjá Landsteyminu og frá því í haust hafa þeir skipt með sér rúmlega 80 málum. Málin eru mjög fjölbreytt og geta verið bæði einstaklingsmál og/eða almenn ráðgjöf. Umsóknir um ráðgjöf og stuðning hafa borist frá foreldrum, fagfólki skólanna, málstjórum, barnaverndarstarfsmönnum og heilbrigðisstarfsfólki og tvö börn hafa auk þess sótt um.
- Setja á fót úrræði fyrir ungmenni 16-17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi (NEET). Staða: Stofnað var verkefnateymi með fulltrúum frá MMS, Vinnumálastofnun, Geðheilsumiðstöð barna hjá HH, Virk, RLS, Reykjavíkurborg, MRN og BOFS til að kortleggja umfang ungmenna á aldrinum 16-17 ára sem eru hvorki í námi né vinnu. Hugað verður sérstaklega að þeim hindrunum sem mæta ungmennum í kerfinu. Unnið er að því að safna gögnum og kortleggja úrræði. Ljóst er að kortlagning á umfangi ungmenna á aldrinum 16-17 ára sem eru hvorki í námi né vinnu verður mun aðgengilegri þegar gagnagrunnurinn Frigg er tilbúinn.
- Efla ungmennastarf í Breiðholti. Staða: Skipulagt ungmennastarf hefur verið starfrækt tvisvar í viku haustið 2024, á fimmtudögum og sunnudögum í félagsmiðstöðinni Hundrað og ellefu (staðsettri í Breiðholti) og dagskráin er ákveðin í samstarfi við nemendaráð Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Starfsemin hefur verið kynnt fyrir 16 ára og eldri í Breiðholtinu.
- Þau sem sækja starfið eru flest ungmenni í viðkvæmri stöðu, t.d. eru fastagestir ungmennastarfsins af 25 þjóðernum. Mest hafa í kringum 85 ungmenni mætt á sömu opnunina. Oftar en ekki snýst starfið um að nærast saman, spjalla saman og vera í samveru við hvert annað og fá stuðning frá hvert öðru og starfsfólki.
- Efla Flotann – flakkandi félagsmiðstöð. Staða: Flotinn hefur verið að vinna með börnum í viðkvæmri stöðu og leitast við að veita þeim stuðning og leiðsögn. Í febrúar og mars 2024 voru aukavaktir mjög tíðar vegna álags í Skeifunni. Á vakt voru oftast tveir til þrír starfsmenn en í Skiefunni voru stundum fleiri. Samtals voru 12 einstaklingar með tímasamning við Flotann og þrír á föstum vöktum.
- Yfir sumarið 2024 voru þó sex í fullu starfi og voru vaktir alla daga vikunnar fyrir utan sunnudaga, bæði dag- og kvöldvaktir. Í lok ágúst 2024 var farið aftur í sama fyrirkomulag og var fyrir sumarið. Flotinn mætti á allar helstu bæjarhátíðir og viðburði á suðvesturhorninu og bætt var við aukavöktum í vetrarfríum og um jólin. Í nóvember 2024 var Flotinn styrktur til þess að fjölga starfsmönnum á vöktum og vettvangsstarfið var eflt.
- Verkefnin eru mjög fjölbreytt en áherslan er á einstaklinga og hópa í áhættuhegðun, en langflest mál varða einstaklinga og hópa í neyslu og/eða ofbeldismál. Mikill tími fer í að „skila“ einstaklingsmálum til viðeigandi aðila en oftast eru það tengiliðir frá félagsmiðstöðvum sem taka við málum innan Reykjavíkur og fara áfram með þau í viðeigandi farveg.
- Mál sem varða önnur sveitarfélög eru oft flóknari vegna ónægra upplýsinga um einstakling, en Flotinn er kominn í gott samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og er að móta verkferla. Vert er að minnast á að kynningarstarf og fyrirlestrar á vegum starfsfólks Flotans á síðasta ári var töluvert, sérstaklega á haustönn.
- Auka fræðslu og forvarnir – samfélagsátak. Staða: Meðal annars voru gerðir voru tveir samstarfssamningar fyrir árið 2025, einn við Neyðarlínuna um Sexuna stuttmyndasamkeppni og einn við Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés) varðandi samskiptasáttmála innan félagsmiðstöðva. Þessir tveir samningar falla undir aðgerðina ,,samfélagsátak“. Markmið samningsins við Samfés er að tryggja að raddir barna og ungmenna heyrist í mótun og þróun á þjónustu félagsmiðstöðva og ungmennahúsa landsins.
- Þátttakendur hafa aðkomu að gerð sáttmála fyrir sína félagsmiðstöð hvað varðar öryggi, samskipti, aðgengi og jöfn tækifæri. Í verkefninu er stefnt að því að hver félagsmiðstöð og ungmennahús taki upp eigin sáttmála og innleiði í sínu starfi í formi jafningjafræðslu. Sáttmálinn verður gerður sýnilegur og kynntur fyrir öllum þeim sem sækja félagsmiðstöðina eða ungmennahúsið. Ungmennaráð (13-16 ára) og Fulltrúaráð Samfés (16-25 ára) munu búa til og veita jafningjafræðslu með börnum og ungmennum.
- Skipulagðir verða fundir með starfsfólki félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í tengslum við sáttmálann þar sem áhersla er m.a. lögð áhersla á öruggt starf, samskipti, aðgengi og jöfn tækifæri. Sexan er stuttmyndakeppni á landsvísu fyrir nemendur í 7. bekk til að auka meðvitund um stafrænt ofbeldi. Grunnskólar keppa sín á milli um bestu stuttmyndirnar sem eru svo sýndar á KrakkaRÚV, auk þess sem allir grunnskólar á landinu fá myndirnar til sýningar í kennslu um stafrænt ofbeldi.
- Verkefnið byggir á hugmyndarræði jafningjafræðslu þar sem börn búa til stuttmyndir um birtingarmyndir ofbeldis fyrir jafnaldra sína. Markmið Sexunnar árið 2025 er að ná til ungmenna af erlendum uppruna, þeirra sem eru félagslega einangruð og ungmenna með fötlun. Að Sexunni standa Neyðarlínan, RLS, Reykjavíkurborg, SÍS, Jafnréttisstofa, MMS, BOFS, RÚV, Fjölmiðlanefnd, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Barnaheill og heilsueflandi grunnskóli. Þann 28. nóvember 2024 var haldinn fræðslufundur í streymi fyrir forsjáraðila barna og ungmenna á Íslandi, þar sem 3 fyrirlestrar voru haldnir og munu lifa á netinu um ókomna tíð. Streymisfundirnir bera yfirskriftina „Tökum samtalið“.
- Embætti Landlæknis flutti fyrirlestur um verndandi þætti í uppeldi barna, Reykjavíkurborg var með fyrirlestur um hætturnar á samfélagsmiðlum fyrir börn og unglinga og Heimili og skóli fjallaði um þau verkfæri sem heimili hafa, í samstarfi við skóla barna. Haldinn var annar fundur í febrúar 2025 þar sem áherslan var lögð á að vera með fyrirlestra fyrir alla þá sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar með börnum og ungmennum. Haldinn var undirbúningsrýnifundur með öllum þeim sem starfa á svæðisstöðvum um land allt, undir stjórn ÍSÍ, til að undirbúa þann fund og fá hugmyndir um efni fyrirlestra og fyrirlesara.
- Svæðisstöðvarnar eru 8 talsins um land allt og er markmið þeirra að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi og ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Lögreglan, í samvinnu við Neyðarlínuna og fjölmarga aðila, vann flæðirit til að dreifa í öll skólastig um fyrstu viðbrögð við kynferðisofbeldi og vopnaburði.
- Markmið flæðiritanna er: a) skýrt verklag í neyðartilvikum vegna vopnaburðar og kynferðisofbeldis, b) að fækka ofbeldisbrotum, c) stuðningur við þolendur ofbeldis, d) stuðningur við gerendur til að stöðva ofbeldishegðun og e) aukin þekking á hvernig megi fyrirbyggja slík atvik og draga úr áhættu.
- Flæðiritunum var fylgt eftir af samfélagslögreglumönnum og eru aðgengileg á vef lögreglunnar og Neyðarlínunnar. Á þeim er m.a. vísað á upplýsingar um tilkynningar til barnaverndar, viðbragðsáætlun og gátlista SÍS fyrir starfsfólk grunnskóla vegna ofbeldis og leiðarvísi um viðbrögð framhaldsskóla við EKKO málum.
- Þá hefur verið unnið fræðsluefni um samskipti, hlutverk lögreglunnar, stafræn kynferðisbrot, afbrot og afleiðingar afbrota og ofbeldi í verkfærakistu samfélagslögreglumanna og athygli vakin á fræðsluefni sem finna má á vef MMS á vefsíðunni; stoppofbeldi.namsefni.is. Í febrúar hófst vitundarvakningin Góða skólaskemmtun sem er ætlað að stuðla að öruggum og ánægjulegum skemmtunum fyrir öll sem taka þátt með áherslu á samstöðu gegn hvers kyns ofbeldi á viðburðum tengdum skólum. Unnin hafa verið góð ráð fyrir skipuleggjendur skólaskemmtana og foreldra og forsjáraðila.
- Virkja foreldrastarf í ytra umhverfi barna og veita fræðslu til foreldra á landsvísu. Staða: Verkefnastjóri SAMAN-hópsins var ráðinn til starfa í 30% starf í mars 2024, með starfsaðstöðu hjá embætti landlæknis. Með fyrstu verkefnum var að uppfæra vefsíðu SAMAN-hópsins og gerður var samningur við SAHARA um heimasíðugerð og hýsingu.
- Markmið vefsíðunnar er að vera upplýsinga- og gagnabanki SAMAN-hópsins. Einnig var sett upp innri síða þar sem efni er aðgengilegt fyrir tengiliði hópsins. Þá hefur SAMAN-hópurinn miðlað fræðslu til foreldra á samfélagsmiðlum (Facebook & Instagram) með greinum, auglýsingum og upplýsingum um ábyrgð foreldra. Fræðsluherferðin „Best SAMAN“ var haldin á opnum Teams-fundi og gerð aðgengileg á Youtube og Facebook. Þar var fjallað um forvarnir með fulltrúum frá ungmennaráði Kópavogs, Planet Youth, Reykjavíkurborg og samfélagslögreglunni.
- Verið er að uppfæra verkefnin „18 ára ábyrgð“ og „Útivistarreglurnar“ í takt við nútímasamfélag. Nýja efnið verður þýtt á 10 algengustu tungumálin í grunnskólum Reykjavíkur, sem talið er að endurspegli dreifingu í öðrum grunnskólum landsins, sem og framhaldsskólum. Unnið verður að hönnun og samræmdu útliti efnisins. Sendiherraverkefnið í Breiðholti mun þýða efnið fyrir SAMAN-hópinn. Á árinu 2024 var skipulögð sameiginleg herferð með RLS og Neyðarlínunni, þar sem fræðslu var miðlað til foreldra og skilaboð SAMAN-hópsins fengu að vera með í þeirri herferð.
- Hefja alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag. Staða: Verið er að undirbúa hópastarfið, búið að ráða starfsmann sem verkefnastjóra og undirbúningur er hafinn í samráði við MRN. Fyrirhugað er að verkefnið fari af stað í apríl 2025, hópur 12-15 ungmenna mótaður og farið í ýmis verkefni sem tengjast sjálfsvinnu, valdeflingu og lífsleikni bæði innandyra og utan.
- Starfinu lýkur í september 2025 með vinnustofu í listsköpun, tjáningu og sögugerð. Samhliða verður boðið upp á málstofu í samvinnu við MoveOn samtökin í Glasgow og Edinborg þar sem starf þeirra verður kynnt, starf sem er í anda Fjölsmiðjunnar en töluvert umfangsmeira og tengist sjálfbærri þróun.
- Koma á skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins. Staða: Vinnuhópur skólahjúkrunarfræðinga af öllu landinu hefur fundað vikulega síðan í janúar 2025 undir stjórn verkefnastjóra. Ferlagreiningu á nústöðu er lokið og unnið er að umbótaverkefnum og forgangsröðun þeirra. Vinnustofur með a) börnum til að heyra þeirra hugmyndir og þarfir fyrir aðstoð og með b) lögreglu og barnaverndarkerfinu eru fyrirhugaðar á vormisseri.
- Útbúa leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að bregðast við begna limlestinga á kynfærum barna. Staða: Heilbrigðisráðherra hefur falið annars vegar ÞÍH (forvörn) og hins vegar LSH (viðbragð) að skrifa upp verklag fyrir sinn faglega hluta.
- Uppfæra og samræma verklag hjá öllum heilbrigðisstofnunum landsins í heilbrigðisþjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis. Staða: Verkefnið er farið af stað.
- Skýra samskipti barnaverndar og heilbrigðiskerfisins um afdrif mála hjá barnavernd. Staða: Verkefnið er hafið og haldinn hefur verið sameiginlegur fundur milli HRN og MRN til að ræða næstu skref.
- Samræma á landsvísu verklag við heilbrigðisþjónustu (skoðun og sýnatökur) þegar grunur er um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Staða: HRN fól LSH að útfæra verkefnið og lagði til 9 m.kr. einskiptis fjármagn vegna undirbúnings verkefnisins og til kaupa á tækjabúnaði. Verkefninu er lokið og hefur verkefnastjóri á NM í Fossvogi tekið við rekstri og eftirliti ferlisins.
- Móta framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við börn sem búa við ofbeldi. Staða: Í desember 2024 var LSH falið að hefja undirbúning opnunar slíkrar einingar en HRN lagði 13 m.kr. til undirbúningsins. LSH hefur skilað verkáætlun og að lokinni rannsókn og greiningu, mótun, vinnustofu, prófun á móttöku, árangursmati og endurskoðun er gert ráð fyrir að innleiðingartillaga ofbeldismóttöku fyrir börn líti dagsins ljós í janúar 2026.
- Auka stuðning við 1., 2. og 3. stigs þjónustu í öllum sveitarfélögum vegna farsældar. Staða: Undirbúningur er hafinn og byrjað verður að auglýsa styrkina til sveitarfélaganna á næstu vikum.
- Styðja við innleiðingu framkvæmdaáætlunarinnar í barnavernd 2023-2027. Staða: Eftirfarandi aðgerðir hafa verið settar af stað; samþætt hugræn atferlismeðferð við ofbeldi gegn börnum, meðferðarfóstur, verklag í barnavernd, könnun alvarlegra atvika og endurskoðun verklags vegna móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn.
- Samhæfa aðgerðir gegn ofbeldi og móta stefnu til framtíðar. Staða: Viðvarandi verkefni.