Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur fram frumvarp sem myndi gera hunda- og kattahald leyfilegt í fjölbýli.
Samkvæmt núgildandi lögum er hunda- og kattahald óheimilt í fjölbýli nema með samþykki annarra eigenda húsnæðisins.
Frumvarpið kveður aftur á móti á um að leyfa dýrahald í fjölbýli en engu að síður geti húsfélag sett reglur um gæludýrahald og lagt við því bann með samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, í stað einfalds meirihluta. Tekið er fram í frumvarpinu að lagabreytingin myndi auka jafnræði gæludýraeigenda í húsnæðismálum ásamt því að stuðla að meira húsnæðisöryggi fyrir þá.
Flokkur fólksins lagði fjórum sinnum fram sambærilegt frumvarp þegar flokkurinn var í stjórnarandstöðu en málið náði ekki fram að ganga.
Inga Sæland formaður flokksins sagði þá að núgildandi lög stuðluðu að mismunun og stéttaskiptingu, þar sem það væri ósanngjarnt að fólk þyrfti að búa í sérbýli eða einbýlishúsi til að geta haft gæludýr.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu