„Alltaf einhverjir sem vilja ekki fara“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að rýming standi yfir í Grindavík en laust upp úr klukkan 7 í morgun hófst kvikuhlaup við Sundhnúkagígaröðina.

„Okkar aðgerðir núna beinast að því að rýma Svartsengissvæðið og Grindavíkurbæ. Það er búið að rýma Bláa lónið og rýming í Grindavík er í gangi. Það eru einhverjir íbúar Grindavíkur sem neita að hreyfa sig en þeir eru vel upplýstir um stöðuna. Það eru alltaf einhverjir sem vilja ekki fara,“ segir Úlfar við mbl.is.

Hann segir að búið sé að loka vegum til og frá svæðinu.

„Tímasetningin er heppileg. Það er bjart og gott veður og lítil starfsemi í bænum,“ segir Úlfar. Hann segir að gist hafi verið í um 50 húsum í bænum í nótt og gestir og starfsmenn í Bláa lóninu hafi verið um 150-200.

„Nú erum við bara í viðbragðsstöðu og sjáum hvað gerist í framhaldinu,“ segir Úlfar. Hann segir að boð frá neyðarlínu hafi borist klukkan 6.50 og í kjölfarið hafi neyðarflautur verið ræstar og rýming farið af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert