Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir eldgosið í eðli sínu vera alvarlegra en mörg fyrri gos þar sem sprunga hafi opnast innan þeirra varnargarða sem eiga að verja Grindavík. Þorbjörg var í stjórnstöð almannavarna þegar eldgosið hófst á tíunda tímanum í morgun.
„Mér fannst mjög merkilegt að vera stödd hér inni með því fólki sem hér starfar þegar að gosið hófst klukkan 9.40. Ég var í samskiptum við ríkislögreglustjóra í morgun þegar hún upplýsti mig um að þetta væri sennilega að gerast. Þannig ég dreif mig á staðinn og var hérna með þeim þegar gosið hófst,“ segir Þorbjörg.
Örfáir heimamenn neituðu að yfirgefa Grindavík í morgun þegar rýma átti bæinn. Var tveimur björgunarsveitarmönnum var ógnað með byssu þegar þeir báðu íbúa um að rýma.
Þorbjörg hvetur fólk til að fylgja tilmælum lögreglu og vera ekki á ferðinni í grennd við eldgosið.
„Lögregla og almannavarnir, okkar besta fólk er að sinna mjög mikilvægum störfum núna og við getum best staðið með þeim í þeirri vinnu með því að hlusta eftir því hver þeir eru,“ segir Þorbjörg.
Ráðherrann leggur áherslu á að engin merki séu um að fólk sé í hættu núna en að fólk eigi að fylgjast vel með fyrirmælum lögreglu.
„Breiðu, stóru skilaboðin eru: Þessi skilaboð eru ekki gefin að ástæðulausu. Það er alvarlegt mál að gefa út svona skilaboð og það segir sitt að þau séu gefin. Þannig að afstaða mín er auðvitað sú að fara að þessum tilmælum,“ segir Þorbjörg.