Uppfært kl. 22.06: Þessi frétt var aprílgabb mbl 2025!
Árnastofnun hyggst eyða orðum úr gagnagrunni sínum vegna takmarkana á gagnageymslum. Orð sem ekki hefur verið flett upp á malid.is síðustu fimm ár verða því tekin úr orðasafni stofnunarinnar.
Við flutninga yfir í Eddu, hús íslenskrar tungu, hefur farið fram tiltekt hjá Árnastofnun. Húsgögn og úreltur tölvubúnaður voru látin fara og skorið var lítillega niður í bókakosti stofnunarinnar. Og nú er komið að tiltekt í gagnagrunnum stofnunarinnar, svo hægt sé að rýma til fyrir nýjum verkefnum.
En fleiri ástæður liggja að baki en bara plássleysi.
„Eins og við vitum þá eru of mörg orð í íslensku,“ segir Helga Hilmisdóttir, sviðsstjóri íslenskusviðs Árnastofnunar, í samtali við mbl.is en stofnunin tilkynnti um þetta í fréttatilkynningu í morgun.
Meðal þeirra orða sem munu hverfa úr safninu eru t.d. aðhneiging, drymbildrútur, dugandlegur, glatarí, hnóhnika, jarðvarp, lýðskyldur, mótorhjólhestur, nítugur, nýsmánlegur, rampóneraður, reiknishaldari, röskvi, skýjablesi, slauksamur, svíri, tísaldalegur, tísaldarlegur, traðjóla og veðurkápa.
„Eins og niðurstöður PISA-rannsókna gefa til kynna eiga ungir Íslendingar erfitt með að læra orðaforða,“ bætir Helga við.
Hún segir að Árnastofnun vonist enn fremur til þess að styrkja stöðu stöðu íslenskrar tungu með því að „taka út svona óþarfa“. Hún nefnir að þarna séu orð sem fáir skilja í dag, og enn færri nota: orð eins og svíri („hnakki“) eða að traðjóla („að traðka“).
„Sum eru hreinlega ljót, eins og slauksamur eða rampóneraður,“ bætir Helga við. „Þetta hljómar ekkert sérstaklega fallega fyrir mér.“
Eina orðið sem hún segist myndu sjá eftir væri mótorhjólhestur. „Mér finnst hjólhestur afar fallegt orð og finnst að við mættum taka það upp í staðinn fyrir hjól,“ segir hún. En fyrst orðið sé svo lítið notað sé fyrir bestu að eyða því úr safninu.
Orðin verða enn aðgengileg í prentuðum orðabókum.