Tillaga Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar, um bann á einkaþotum og þyrluflugi á Reykjavíkurflugvelli var samþykkt á fundi borgarstjórnar í kvöld. Allir borgarfulltrúar í meirihluta borgarstjórnar greiddu atkvæði með tillögunni, auk Þórdísar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni og borgarfulltrúar Framsóknar sátu hjá.
Í samtali við mbl.is segir Þórdís að það hafi ekki komið henni sérlega á óvart að tillagan hafi verið samþykkt:
„Ég vissi að það eru þarna flokkar innan samstarfsflokkanna fimm sem hafa haft þessa skoðun lengi og Vinstri grænir lögðu fram ekki ósvipaða tillögu fyrir nokkru síðan. Svo vissi ég að þegar það kemur að raunveruleikanum myndu samstarfsflokkarnir átta sig á því að við verðum að taka ákvörðun núna.“
Í tillögunni er lagt til að borgarstjóra verði falið að beita sér fyrir því að færa umferð einkaþotna og almennt kennslu- og þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli og tekið verði aftur upp samtal við ríkið byggt á samkomulagi sem var gert árið 2013, þar sem kveðið er á um að innanríkisráðuneytið og Isavia muni hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni við borgina.
Rétt er að taka fram að þyrluflug Landhelgisgæslunnar verður áfram á flugvellinum.
Segir Þórdís að nú sé boltinn hjá Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra sem þurfi að ræða við innviðaráðherra og forsvarsmenn Isavia um næstu skref og finna nýja staðsetningu fyrir einka-, þyrlu- og kennsluflug.
Er einhver staðsetning sem þú sérð fyrir þér fyrir þá einka-, þyrlu- og kennsluflug?
„Það sem snýr að einkaþotum og þyrlum finnst mér augljóst að Keflavík gæti verið kostur, hvort sem það er núverandi Keflavíkurflugvöllur eða gamli hervöllurinn. En kennsluflugið og einkaflugið er kannski aðeins flóknara og ég hef enga sérstaka skoðun á því,“ segir Þórdís.