Beindi byssu yfir höfuð björgunarsveitarmanns

Lögreglan að störfum við Grindavík í dag.
Lögreglan að störfum við Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúi sem björgunarsveitarfólk aðstoðaði í morgun við að ganga frá lausum endum þegar rýma átti Grindavík dró upp byssu og beindi henni upp í loftið og yfir höfuð björgunarsveitarmanns þegar viðkomandi var bent á að yfirgefa bæinn.

Íbúinn sat inni í bifreið og björgunarsveitarmaðurinn stóð við glugga bílsins þegar atvikið átti sér stað. Öllum félögum í Landsbjörg er verulega brugðið og er avikið „algjörlega óásættanlegt“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Landsbjargar. Eins og mbl.is hefur greint frá var íbúi handtekinn í morgun eftir að hafa hótað björgunarsveitarfólki með skotvopni.

Tryggja að allir séu meðvitaðir um stöðuna

Í yfirlýsingu Landsbjargar segir að 15 félagar björgunarsveitarinnar Þorbjarnar hafi aðstoðað Grindvíkinga sem enn búa í bænum við að rýma.

„Hlutverk björgunarsveita við rýmingu er fyrst og fremst að tryggja að allir einstaklingar á svæðinu séu meðvitaðir um stöðuna sem upp er komin þ.e. séu t.d. ekki sofandi heima og aðstoða þá sem af einhverjum ástæðum komast ekki af sjálfsdáðum úr bænum svo dæmi séu tekin. Það er ekki hlutverk björgunarsveitarfólks að vísa fólki úr bænum en það bendir fólki góðfúslega á það að skynsamlegt sé að yfirgefa bæinn meðan óvissuástand varir,“ segir í yfirlýsingunni.

Illa brugðið

Hópurinn aðstoðaði meðal annars íbúa við að ganga frá nokkrum lausum endum. Í yfirlýsingunni segir að þegar þeirri aðstoð hafi verið lokið hafi viðkomandi verið bent á að skynsamlegt væri að yfirgefa bæinn. 

Íbúinn sat á þeim tímapunkti í bíl sínum og björgunarsveitarmaðurinn stóð við gluggann hjá honum. Dró þá íbúinn upp byssu og beindi henni upp í loftið og yfir höfuð björgunarsveitarmannsins, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

Björgunarsveitarfólkinu er að vonum illa brugðið, hverfur á braut og tilkynnir atvikið til aðgerðastjórnar.

Sjálfboðaliðar eigi ekki að setjast í dómarasæti

Í yfirlýsingunni segir að björgunarsveitarfólk sýni því mikinn skilning að ekki allir vilji yfirgefa bæinn þegar eldgos brjótist út. Það sé jafnframt alveg skýrt að það sé ekki hlutverk sjálfboðaliða í björgunarsveit að segjast í dómarasæti og hlutast til um það hverjir eigi að fara og hverjir megi vera.

Aftur á móti sé alveg skýrt að það sé algjörlega óviðunandi að björgunarfólki sé mætt með skotvopnum. 

„Slíkt getum við ekki og eigum ekki að sætta okkur við.“

Öllu björgunarsveitarfólki er verulega brugðið og varpar atburðurinn enn frekari skugga á ömurlegt ástand Grindvíkinga um þessar mundir.

„Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur alla til að koma vel fram við björgunarsveitarfólk sem og aðra viðbragðsaðila og muna að það eru allir að gera sitt besta við erfiðar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert