Svokölluð Flóttamannaleið er orðin ansi illa farin og holótt á löngum köflum. Endurbygging vegarins er löngu tímabær.
Engar stærri viðhaldsaðgerðir eru þó á dagskrá en gert er ráð fyrir að fara í holuviðgerðir í sumar. Þetta upplýsir Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur á samskiptadeild Vegagerðarinnar.
Hún segir að vinna við samgönguáætlun eigi að fara fram í haust og verði þá lögð áhersla á að fá fjármagn í stærri breytingar á veginum.
Í drögum að samgönguáætlun var gert ráð fyrir fjármagni til verksins árið 2028 en það er hins vegar ekki nægjanlegt til að laga allan veginn. Auk þess hefur áætlunin ekki enn hlotið samþykki.
„Vegagerðin á í góðu samtali við þau sveitarfélög sem vegurinn liggur um varðandi framtíð hans,“ segir Sólveig.
Breytingar eru þó fyrirhugaðar á einstökum hlutum vegarins. Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt breytingu deiliskipulags Urriðaholts norðurhluta 4. áfanga sem gerir ráð fyrir breyttri útfærslu Flóttamannavegar og gatnamóta við Urriðaholtsstræti, Holtsveg og aðkomuveg að golfvallarsvæði Odds.
Flóttamannaleið liggur fyrir ofan Kópavog og Garðabæ, frá Vatnsenda í Kópavogi, fram hjá Vífilsstaðavatni og Urriðaholti allt að Kaldárselsvegi í Hafnarfirði.
Vegurinn er barn síns tíma og er bugðóttur og hæðóttur.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu