Byssumaðurinn í Grindavík var handtekinn

Gunnar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn í lög­regl­unni á Suður­nesj­um.
Gunnar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn í lög­regl­unni á Suður­nesj­um. mbl.is/Kristófer Liljar

Maður sem mætti björgunarsveitarmönnum með byssu í Grindavík við rýmingu var handtekinn á vettvangi. 

Þetta segir Gunnar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn í lög­regl­unni á Suður­nesj­um, í sam­tali við mbl.is á samhæfingarmiðstöðinni í Reykjanesbæ.

„Viðkomandi var handtekinn og við förum með rannsókn þess máls. Þeir sem urðu fyrir þessu fengu viðeigandi aðstoð,“ segir hann.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá var tveim­ur björg­un­ar­sveit­ar­mönn­um ógnað með byssu þegar þeir hugðust taka þátt í rým­ingu Grinda­vík­ur í morg­un. Sér­sveit­in var kölluð á vett­vang og björg­un­ar­sveit­ar­menn­irn­ir fengu aðstoð full­trúa Rauða kross­ins.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er maðurinn nú laus úr haldi. 

20-25 viðbragðsaðilar að störfum

Gunnar segir að um 20-25 viðbragðsaðilar séu að störfum á Grindavíkursvæðinu. Vert er að taka fram að um er að ræða viðbragðsaðila í tengslum við eldgosið, en ekki atvikið sem átti sér stað fyrr í dag vegna byssunnar.

Í þeirri tölu er ekki tekið með verktakavinnumenn sem eru til staðar í tengslum við varnargarða og innviði.

Áhugi almennings hefur farið jafnt og þétt minnkandi með eldgosum og því minna um mannaferðir frá útsýnisstöðum yfir eldgosið, að sögn Gunnars. Lélegt útsýni af gosinu hjálpar líka.

„Til dæmis þetta eldgos sést í rauninni ekki frá Reykjanesbraut. Þannig aðdráttaraflið er annað heldur en síðast þar sem allt blasti við,“ segir Gunnar.

Lögreglumenn að störfum í Grindavík. Mynd úr safni.
Lögreglumenn að störfum í Grindavík. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðbragðsaðilar vel þjálfaðir

Hann segir að eldgosin séu ekki endilega orðin hversdagsleg þrátt fyrir það hversu algeng þau séu. Aftur á móti séu viðbragðsaðilar orðnir þrautþjálfaðir í að bregðast við.

„Fyrstu skrefin eru náttúrulega rýmingar og að loka ákveðnum aðkomuleiðum að Grindavík. Þessi hópur sem stendur í þessu og hefur staðið í þessu í gegnum þessi gos er orðinn vel þjálfaður og þekkir verkefnin sem koma upp,“ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert