Eldur kviknaði í götukassa HS Veitna ofan við Víðihlíð í Grindavík um það leyti sem eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni var að brjótast út á tíunda tímanum í morgun.
Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi HS Veitna, segir erfitt að segja til um hvað hafi nákvæmlega orsakað eldinn en jarðhræringarnar séu líkleg skýring. Viðgerðarmenn HS Veitna hafi ekki farið á vettvang vegna gossins.
Hún segir atvikið ekki hafa áhrif á þjónustu Veitna. Eins og er sé bæði rafmagn og heitt vatn á öllum húsum í Grindavík.