„Gosið er kraftminna en síðustu gos og ég held að það orsakist af því að það fór talsvert magn af kviku í að fylla kvikuganginn áður en kvikan komst upp á yfirborðið. Þá náði þrýstingurinn að detta niður og minnkaði þar með kraftinn á upphafsfasanum,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Áttunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni frá því goshrinan hófst þar í desember 2023 braust út á tíunda tímanum í morgun en áköf jarðskjálftahrina hófst kl. 6.30 í morgun á Sundhnúkagígaröðinni.
Benedikt segir að enn sjáist merki um hreyfingar, skjálftavirkni sé enn í gangi en dregið hafi úr aflögun.
„Það eru enn þá að mælast skjálftar og þá meira á norðurenda sprungunnar. Það er hægjast á lengd sprungunnar en hún er komin suður fyrir varnargarðana fyrir norðan Grindavík og hraun rennur austan við Orf-gróðurhúsið en það er lítið,“ segir hann.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands klukkan 11 segir að sprungan hafi lengst til suðurs og að ný gossprunga hafi opnast nokkur hundruð metra innan við varnargarða norðan Grindavíkur, milli varnargarða og Grindavíkur.
Benedikt segir gosið sé mjög svipað gosinu sem varð í janúar í fyrra. Það hófst 14. janúar og lauk rétt eftir miðnætti 16. janúar. Hraunrennslið í því gosi eyðilagði hið minnsta þrjú hús í Grindavík.
„Þetta er mjög svipaður atburður og í janúar. Hann er minni og það er minni aflögun og heildarrúmmál en þá. Það gos, sem var pínulítið, kom upp alveg við jaðarinn á byggðinni. Þetta gos er minna í sniðum og gangurinn nær ekki alveg eins langt og þá. Við vonum að þetta sleppi og það komi ekki upp kvika þarna en við getum ekki útilokað það,“ segir Benedikt Gunnar.
Hann segir að kerfið sé búið að breyta sér mjög mikið á þessu ári og því sé erfitt að spá fyrir um framhaldið.
„Það er greinilega erfiðara fyrir kvikuna að koma upp. Þetta tók lengri tíma og það er búið að hægja verulega á innflæðinu undir Svartsengi. Aðstæður í jarðskorpunni eru allt aðrar og við verðum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast áður en við förum eitthvað að spá í framhaldið.