Aprílgöbb fjölmiðla og ýmissa fyrirtækja voru nokkuð fjölbreytt þetta árið. Ekki fer mörgum sögum af því að fólk hafi í raun gert mikið af því að hlaupa apríl vegna þeirra en göbbin léttu ef til vill lund fólks.
Hér á mbl.is voru birt tvö göbb. Annars vegar um að Árnastofnun hygðist eyða orðum úr gagnagrunni sínum vegna takmarkana á gagnageymslum. Boðað var að orð sem ekki hefur verið flett upp á malid.is síðustu fimm ár yrðu tekin úr orðasafni stofnunarinnar.
Þá var greint frá því að frá og með deginum í dag gætu pör 18 ára og eldri gengið í hjónaband í Hagkaup Skeifunni, allan sólarhringinn, undir handleiðslu viðurkennds athafnastjóra. Haft var eftir Sigurði Reynaldssyni, framkvæmdastjóra Hagkaups, að þetta kæmi í kjölfar vel heppnaðs samstarfs um afhendingu vegabréfa í versluninni.
Hamborgarabúlla Tómasar kynnti samstarf sitt við velska knattspyrnuliðið Wrexham. Hermt var að Búllan yrði aðalstyrktaraðili liðsins næstu fimm árin, heimavöllur liðsins yrði nefndur eftir veitingakeðjunni og hamborgarnir víðfrægu seldir þar.
Bónus kynnti nýja vörutegund sem komin væri í sölu: Grísblóm. Ekki má telja líklegt að margir hafi rokið út í búð til að næla sér í ísblóm með beikonbragði en sennilega hafa þó furðulegri vörur litið dagsins ljós í gegnum árin.
Austurfrétt var með aðeins þyngra grín þetta árið en skilaboðin voru sterk. Miðillinn sagði frá því að samþykkt hefði verið í ríkisstjórn að leggja fram frumvarp um að lokað verði hér á landi fyrir aðgang almennings að mörgum af þekktustu samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Instagram, X, Snapchat og TikTok, ef eigendur og forsvarsmenn þessara miðla muni ekki samþykkja að innheimta og greiða til ríkissjóðs virðisaukaskatt af seldum auglýsingum.
DV birti frétt um að tónlistarmaðurinn Jón Jónsson myndi standa grafkyrr sem lifandi gína í 99 mínútur í tilefni 99 ára afmælis 66°Norður.
Þá var greint frá því á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs að hljómsveitin Iceguys muni troða upp á afmælistónleikum þjóðgarðsins í sumar.
Happy Hydrate kynnti nýja vörutegund á auglýsingaskiltum í borginni í dag: Dubai-súkkulaði steinefnablöndu. Sett var upp sérstök lendingarsíða þar sem fólk fékk skilaboð um að aprílgabb væri að ræða.
Hallgrímskirkja birti einnig grín á heimasíðu sinni um að kirkjan hefði gefið bókina: Krossfesti Kristurinn: Frásögn hans JK: Líf mitt eftir krossinn. Hugmyndin að gríninu kom í kjölfar þess að einn starfsmanna kirkjunnar ákvað að hrekkja samstarfsfélaga sína í morgunsárið með því að koma með eintök af bókinni á starfsmannafund í morgun.