Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, segir almannavarnir vera að bregðast við eldgosinu eins og það raungerist.
Verið sé að skoða hvort sviðsmynd eldgossins gæti orðið stærri en áður.
„Það er alltaf á þessum fyrstu stigum mikil óvissa. Það er kannski mesta áskorunin hjá okkur núna,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.
Hann segir allt viðbragð hafa gengið vel. Nú sé verið að vinna í því að setja upp litla leiðigarða til að bregðast við hraunflæði.
„Eins hvað varðar slökkvistarf og hraunkælingu, það hefur verið unnið í því í morgun þannig við erum að bregðast við þessum atburði eins og hann er að raungerast. En ég ítreka það að óvissan er gríðarleg og hefur alltaf verið,“ segir Runólfur.
Heildasýn muni nást að sólarhring loknum.
Gætum við verið að horfa á stærri sviðsmynd en áður?
„Það er svona eitt af því sem við erum að skoða miðað við fyrstu upplýsingar í morgun, að þetta væri töluvert mikið magn af kviku sem að væri á einhverri hreyfingu þarna undir jarðskorpunni. Þannig það er það sem við erum að horfa á líka hvað varðar óvissuna.“
Það var verið að rýma bæinn í morgun og þá neituðu sumir íbúar að fara, hefurðu einhver skilaboð til þeirra íbúa?
„Ég bara ítreka það sem ég sagði í morgun, að verða við rýmingartilmælum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Við hjá almannavarnakerfinu öllu ítrekum og óskum eftir því að fólk fari eftir þeim tilmælum.“