Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig fylgi á milli mánaða samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup. Miðað við fylgistölurnar gætu flokkarnir myndað saman tveggja flokka ríkisstjórn.
Samfylkingin mælist með 27% fylgi og myndi fá 19 þingmenn. Flokkurinn fékk 20,8% fylgi í síðustu kosningum og hefur því bætt við sig verulega frá þeim.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,4% fylgi og hefur ekki mælst stærri í mælingum Gallup í slétt tvö ár. Fengi flokkurinn 16 þingmenn en fyrir mánuði síðan var Guðrún Hafsteinsdóttir kjörin formaður flokksins.
Viðreisn mælist með 14,6% fylgi og Miðflokkurinn mælist með 9,3% fylgi.
Flokkur fólksins heldur áfram að tapa fylgi frá kosningum og mælist nú með 7,7% fylgi.
Framsókn mælist með 5,7% fylgi og Sósíalistaflokkurinn 5,4% fylgi, en hann náði ekki manni inn á þing síðast. Píratar mælast með 4% fylgi og Vinstri græn 3,3% fylgi.