Jarðskjálftavirkni heldur áfram þó dregið hafi úr eldgosinu norðan við Grindavík og að lítið sjáist til virkni. Skjálftavirknin færist norður og Veðurstofan gerir ráð fyrir kvika geti komið upp þar.
Skjálftavirkni við suðurhluta kvikugangsins, nærri Grindavík, hefur dvínað en virknin á norðurenda kvikugangsins, nær Reykjanesbrautinni, heldur áfram af svipuðum krafti og hefur færst enn norðar síðustu klukkustundir.
„Á meðan jarðskjálftavirkni er enn töluverð og aflögun mælist ennþá þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvika komist aftur upp á yfirborðið á Sundhnúkagígaröðinni eða nærri því svæði sem skjálftavirkni er mest,“ segir í færslu á vef Veðurstofunnar.
Skjálftavirknin er komin tæpa níu kílómetra norðar en nyrsta gossprungan í þessari goshrinu, en hún myndaðist í ágúst 2024. Stærstu skjálftarnir hafa verið um 3 að stærð og finnast greinilega í Vogum sem er um sjö kílómetra norðvestur við virknina.
Veðurstofan segir aflögunarmælingar sýna að kvika flæði enn frá Svartsengi yfir í kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni. Jarðskjálftavirknin bendi til þess að kvikan færist til norðausturs.
Skjálftavirknin er á um 4-6 km dýpi og unnið er að því að greina aflögunargögn á því svæði.