Kvikugangurinn sem myndast hefur út frá Sundhnúkagígaröðinni hefur rutt sér leið umtalsvert norður. Norðurjaðar gangsins virðist þannig nú kominn nær Reykjanesbraut en sjálfu gosinu. Vísindamenn hafa aldrei séð kvikuinnskot svo langt til norðurs.
Skjálftavirkni er áfram mjög mikil þrátt fyrir að rúmlega fjórir tímar séu liðnir af gosinu.
„Við sjáum enn merki um aflögun þarna nyrst, þannig að ég held að kvikugangurinn sé ekkert mikið á eftir skjálftavirkninni,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Hann er að öllum líkindum kominn norður fyrir Litla-Skógfell,“ bætir hann við.
„Þetta er lengsta innskotið til norðurs sem við höfum séð til þessa.“
Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá hvernig jörðin skelfur eftir því sem kvikugangurinn færist norðar.
Spurður hvort skjálftavirknin sé því merki um að kvikugangurinn teygi sig norður segir Benedikt að endi gangsins geti verið aðeins sunnar, en það sé um það bil „oddurinn á kvikuganginum“.
„Oft sjáum við skjálftana aðeins á undan aflögunarmerkinu, þannig að þó það sé kannski eitthvað sunnar munar það líklkega ekki meira en 100 metrum.“
„Skjálftavirknin byrjaði á mjög svipuðum slóðum og hefur alltaf gert, svo myndaðist gangur sem fór bæði til norðurs og suðurs. Eldgosið kom upp rétt norðan við Grindavíkurbæ, eftir það hefur virknin þar minnkað en virknin og aflögunin á norðurendanum hefur haldið áfram,“ segir Benedikt.
„Það hefur vissulega hægt á henni en það er ennþá virkni á norðurenda gangsins.“
Hvað þýðir það, eigum við þá von á að sjá sprungu þar?
„Við verðum eiginlega að sjá til hvernig það þróast, það gæti alveg gerst en það er erfitt að segja til um það núna.
Það er alla vega kvika sem er komin mjög norðarlega og það er ekkert útilokað að hún komi upp hvar sem er á þessu bili. Þetta er líklega orðin 12-13 kílómetra langur kvikugangur.
Það gæti alveg komið upp gos annarsstaðar á kvikuganginum en við vitum það bara ekki.“
„Það er nóg eftir af kviku, sem getur haldið áfram að fæða eldgosið eða komið upp annars staðar,“ segir Benedikt.
„Það heldur áfram virkni þarna norðanmegin og það gæti alveg þróast í þá átt að eitthvað gerist þar. Það er ennþá talsvert langt frá Reykjanesbrautinni þannig að hún er ekki komin í neina stórhættu strax.
Talsvert kvikumagn er komið undan Svartsengi í kvikuganginn, þó að gosið sé lítið núna þá er atburðurinn sæmilega stór.“
Að sinni er þó fyrst og fremst fylgst með suðurendanum, þar sem enn gýs innan varnargarða Grindavíkurbæjar. Það segir hann megináhyggjuefnið.