Ekki er gert ráð fyrir því að verktakar þurfi að ráðast í neinar aðgerðir vegna varnargarða við Grindavík að svo stöddu.
Ef hraun rynni að húsum væri lítið hægt að gera, en sem betur fer dregur úr krafti gossins.
Þetta segir Arnar Smári Þorvarðarson, byggingartæknifræðingur hjá Verkís, í samtali við mbl.is.
„Þeir [varnargarðarnir] hafa sem slíkir alveg haldið en það opnast jörð í gegnum garðana,“ segir hann og vísar í sprunguna sem liggur undir varnargarðinum austur af gróðurhúsi ORF sem sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.
Verulega virðist hafa dregið úr krafti gossins og lítið hraun hefur komið upp úr sprungunni sem nær innan varnargarðanna.
Menn höfðu velt því fyrir sér hvort eitthvað væri hægt að gera ef hraun tæki að renna að húsum í Grindavík en hann segir að niðurstaðan hafi verið sú að lítið væri hægt að gera annað en að hjálpa við slökkvistarf.
Núna eru um 13 menn að störfum til viðbragðs ef eitthvað þarf að gera í tengslum við varnargarðana.
Arnar segir að hingað til hafi ekkert þurft að gera vegna gossins og bætir við að í raun hafi engin vinna verið við varnargarðana í allan marsmánuð.
„Við erum að fylgjast með þessu og horfa til þess hvort að eitthvað þurfi að koma til viðbragðs, sem okkur sýnist ekki þurfa að verða,“ segir Arnar.
Eitt stórt skarð er í varnargörðunum við Svartsengi svo að Grindavíkurvegur sé opinn. Hraunið rennur ekki þangað og því hefur ekki þurft að loka því en Arnar segir að þar sé áfram fylgst grannt með stöðu mála.