Ríkisstjórnin hélt upp á 100 daga afmæli sitt í gær og kynnti nýja fjármálaáætlun fyrir 2026-2030. Oddvitar stjórnarinnar lögðu áherslu á traust og trúnað í samstarfinu, en að áherslan fram á við yrði á efnahagslegan stöðugleika, fyrirhyggju og fyrirsjáanleika.
Stefnt er að hallalausum ríkissjóði 2027 og jafnvægi í opinberum rekstri 2028. Hagræða á í opinberum rekstri um 107 milljarða króna, m.a. með kerfisbreytingum og sameiningu stofnana, sem leitt geti til fækkunar opinberra starfa. Þjónusta og nýting fjármuna ríkisins verði í forgangi.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði við kynningu fjármálaáætlunar í gærmorgun að hún væri afar skýr, með útfærðum aðgerðum ólíkt fyrri áætlunum. Ekki er þó að sjá að nýja fjármálaáætlunin sé verulega frábrugðin hinni fyrri.
Þar er þó kynnt ný „stöðugleikaregla“, sem kann að leiða til skattahækkana, hvað sem öllum heitstrengingum um hið gagnstæða líður, ef útgjöldin þenjast út.
Alls er gert ráð fyrir 35 milljörðum kr. í ný útgjöld, mestu eða 11 milljörðum í félags- og tryggingamál, sem Inga Sæland félagsmálaráðherra segir að muni gagnast 65 þúsund öryrkjum og eldri borgurum, „tryggja umtalsverðar kjarabætur fyrir 95% öryrkja“, sagði hún.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði Flokk fólksins hafa haft afgerandi áhrif á fjármálaáætlunina, sem sýndi vel mikilvægi hans og áhrif í ríkisstjórnarsamstarfi þótt einhverjir hefðu viljað efast um hann. Hún gerði lítið úr vandræðum flokksins og afleiðingum fyrir stjórnina, þótt ráðherraskipti hefðu orðið í liðinni viku.
Nýir tekjustofnar, eins og tvöföldun veiðigjalda, endurskoðað bifreiðagjald frá 1. júlí og gjald við náttúruperlur, eiga að styðja við fjármálaáætlunina.